Ætlar tæpar 700 milljónir í rannsóknir og innviði til verndar laxinum
Breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe ætlar að veita hátt í sjö hundruð milljónum króna í rannsóknir og innviði til verndar íslenska laxastofninum á Norðausturlandi á næstu 3-4 árum.Í gær var undirritaður samningur milli INEOS Group, fyrirtækis Ratcliffe og Hafrannsóknastofnunar um fjármögnun á nýrri rannsóknaráætlun stofnunarinnar. Hún verður unnin í samstarfi við lífvísindadeild Imperial College í Lundúnum. Rannsóknin er hluti af fyrirætlunum Ratcliffe um vernd Atlantshafslaxins á Norðausturlandi.
Rannsóknin, sem er af fullu fjármögnuð af Ratcliffe, nær til nýrra sviða vistfræði og hegðunar laxins. Doktorsnemar frá hvorri stofnun framkvæma ítarlegar rannsóknir sem ná til núverandi stærðar stofna laxins, genakortlagningar og hátæknimerkinga fiska sem leiða á í ljós tengslin á milli umhverfis og hegðunar laxa í ánum og endurkomu þeirra í árnar úr hafi.
Niðurstöður þessara ítarlegu rannsókna verða birtar í vísindaritum og styðja við verndarstarfið í og í nágrenni laxánna. Þegar niðurstöður liggja fyrir verður þeim einnig deilt með íslenskum stjórnvöldum og viðeigandi sveitarfélögum.
Starfsmenn með tímabundna búsetu
Áætlaður kostnaður er 80 milljónir á næstu 3-4 árum. Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Strengs segir mestur kostnaðurinn við tækjakaup og laun doktorsnema. Þeir verða tveir, annar frá Imperial College en hinn á vegum Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands. Sú staða verður auglýst á næstunni.
Gísli segir ekki ljóst hversu margir starfsmenn munu koma að rannsóknunum, en þeir verði þó nokkrir. Þeir verða bæði frá Hafrannsóknastofnun og Streng en ýmislegt þarf að gera svo sem merkja gönguseiði og laxa, fylgjast með teljurum, taka sýni, grafa hrogn og fleira. Allt þetta hefur verið gert síðustu ár en umfangið mun aukast. Aðspurður segist Gísli fyrst og fremst búast við að starfsmenn hafi tímabundna búsetu á Norðausturhorninu í tengslum við rannsóknirnar.
Ný veiðihús og laxastigar
Í haust verður, með aðstoð og undir sérfræðihandleiðslu Hafrannsóknastofnunar, hafinn árviss gröftur hrogna í ánum. Um einni milljón hrogna úr fiski af svæðinu verður á hverju ári komið fyrir í efri svæðum ánna þar sem laxinn hefur ekki komist áður, og opnaðar nýjar vaxtarlendur til þess að bæta vöxt og lífvænleika fiskanna á mikilvægu fyrra skeiði lífshlaups þeirra.
Stækkun hrygningar- og uppvaxtarsvæða laxins með byggingu nýrra laxastiga í Hafralónsá, Hofsá, og Miðfjarðará í Vopnafirði, er jafnframt hluti af langtímaáætlunum um að auka viðgang íslenska laxins. Framkvæmdunum miðar áfram með aðstoð fjárfestingar af hálfu Sir Jim og Strengs. Í Miðfjarðará var í fyrra lokið við og opnaður laxastigi. Þar hefur lax þegar náð bólfestu á nýjum svæðum í efri hluta árinnar, sem bætir við 4,5 kílómetrum af nýju búsvæði fyrir unglaxinn.
Þá er verið að teikna nýtt veiðihús sem standa mun við Miðfjarðará og stefnt er að byggt verði á næsta ári. Að sögn Gísla eru ætlaðar 600 milljónir króna í innviðaverkefni, laxastiga og ný veiðihús á svæðinu, á næstu 3-4 árum. Framgangurinn veltur á rannsóknum og samningum við aðra veiðiréttarhafa og sveitarfélög.
Trjárækt og landbúnaður til að efla vistkerfi
Þá er hafin vinna við endurheimt gróðurfars og trjárækt á svæðinu í samstarfi við skógfræðing Vopnafjarðarhrepps og starfsfólk. Á vegum Ratcliffe renna 300.000 krónur til plöntunar í ár.
Vonir standa til að það auki jarðgæði á svæðum gróðureyðingar og auðgar lífríki svæðisins. Með því megi mögulega bæta til langframa fæðisöflun unglaxa í ánum. Nálgunin, að vernda og endurheimta gæði vistkerfanna, byggir á því að bændur rækti áfram og nýti með hefðbundnum hætti land á jörðum svæðisins og auðgi gæði búsvæðanna meðfram ánum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Til viðbótar við bein fjárframlög frá Sir Jim Ratcliffe, rennur nú allur hagnaður af starfsemi Strengs aftur til verndarstarfs laxa á Norðausturlandi. Með verkefnunum er haldið áfram að vernda árnar og stækka uppvaxtarsvæði þeirra, um leið og unnið er með bændum og sveitarfélögum að vernd búsvæðisins.
Mynd: Einar Falur