Ætluðu í Norrænu með þýfi úr Elko

Tveir einstaklingar voru handteknir á leið sinni í Norrænu í síðustu viku með þýfi úr stóru ráni úr raftækjaversluninni Elko undir höndum. Þeir sitja nú í gæsluvarðhaldi.

Tveir erlendir ríkisborgarar í bíl á íslenskum númerum voru handteknir á leið í gegnum innritunarröð Norrænu síðasta miðvikudag. Heimir Ríkharðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að á þeim hafi fundist það þýfi sem náðst hefur eftir ránið í Elko.

Fyrir rúmri viku var brotist inn í tvær verslanir Elko á höfuðborgarsvæðinu og stolið þaðan raftækjum, símum og minni tækjum, fyrir tugi milljóna króna. Fljótlega voru fjórir handteknir vegna málsins. Þremur var sleppt en einn situr í gæsluvarðhaldi til 4. október.

Að auki voru einstaklingarnir tveir handteknir á Seyðisfirði. Þeir voru fluttir til Reykjavíkur og úrskurðaðir þar í gæsluvarðhald fram til 2. október. Heimir segir verið að meta framhaldið á stöðu þeirra.

Rannsókn málsins er enn í fullum gangi og fylgst með sendingum úr landi til að freista þess að endurheimta meira af þýfinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar