Afföll á dýrum með staðsetningartæki vegna veiða

Tvö dýr með staðsetningartæki á vegum Náttúrustofu Austurlands voru skotin við veiðar í vikunni. Forstöðumaður stofnunarinnar segir viðbúið afföll verði á merktum dýrum og leitast verði eftir að koma tækjunum á ný dýr.

Á heimasíðu Náttúrustofunnar er greint frá því að annars vegar hafi ein af þeim sex hreindýrskúm, sem merktar voru í lok vetrar, verið skotin við veiðar. Hins vegar hafi ein þeirra fimm heiðagæsa sem merktar voru síðasta sumar verið skotin.

Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofunnar, segir veiðarnar ekki setja strik í reikninginn við rannsóknirnar þótt úr minni gögnum sé að moða. „Það er alltaf viðbúið að svona gerist. Það er útilokað að veiðimenn sjái í rökkrinu hvort gæsirnar séu með kraga eða ekki. Stundum gerist það líka að tækin bila og hætta að senda okkur.“

Þetta er önnur gæsin úr hópnum sem drepst en ein þeirra flaug á raflínu í Bretlandi síðasta vetur. Önnur gæs var merkt í hennar stað í sumar og stefnt er að koma tækinu af þeirri sem dó nú á nýja næsta sumar. Fjórar gæsir eru með senda nú þegar þær halda til vetrarstöðvanna.

Meiri skaði er af hreindýrskúnni enda töluvert meira mál að koma tækjunum á þær. Þær eru einnig með áberandi litaðan kraga, en í þessu tilfelli var kýrin sem skotin var í felum bakvið aðra og varð fyrir gegnumskoti. Vonast er til að hægt verði að koma tækinu á nýja kýr í vetur en fimm kýr eru enn með tæki.

„Hverri kú fylgir stærri hópur þannig þetta snýst um meira en bara hana. Þessi dýr eru hins vegar alltaf búin að safna einhverjum gögnum. Hreindýrskýrnar hafa þegar skilað forvitnilegum gögnum þannig nú leitum við að nemum með áhuga á greina gögn úr staðsetningartækjum til að vinna verkefni fyrir okkur,“ segir Kristín.

Þá sé mikilvægt að veiðimenn séu árvökulir ef þeir skjóti merkt dýr og skili staðsetningartækjunum. „Við erum glöð yfir að við höfum verið látið vita og fengið tækin,“ segir Kristín.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar