Afgerandi úrslit það jákvæðasta

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og formaður samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélagsins, Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar segir talsverða vinnu við að undirbúa sameiningu sveitarfélaganna sem íbúar þeirra samþykktu í kosningum í dag. Eitt af því verður að finna nafn á sameinað sveitarfélag.

„Þetta er í samræmi við það sem maður upplifði á íbúafundunum. Andinn þar var það jákvæður að það hefði komið mér á óvart ef sameiningin hefði verið,“ sagði Björn þegar úrslitin lágu fyrir í kvöld.

Á Fljótsdalshéraði voru 93% fylgjandi sameiningunni og kjörsókn 53%. Á Seyðisfirði sögðu 87% já og þar var kjörsóknin 71%. Á Borgarfirði greiddu 66% atkvæði með og kjörsókn var 72%. Á Djúpavogi voru 64% fylgjandi sameiningu og kjörsókn 78%.

„Kosningin er mjög afgerandi og það finnst mér það jákvæðasta. Ég hafði á tilfinningunni að stuðningurinn væri afgerandi á Borgarfirði. Síðustu daga og vikur hefur maður skynjað að fylgnin við sameininguna væri meiri en maður hefði talið en ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á að hún væri eins mikil og kosningin leiðir í ljós.

Á Djúpavogi höfðum við skynjað neikvæða undiröldu og í ljósi þess er ánægjulegt hversu afgerandi úrslitin þar eru. Þar var líka mjög góð kjörsókn sem hefur ansi mikið að segja. Fólk mætti á kjörstað.“

Sameiningin sjálf tekur þó ekki gildi fyrr en að loknum sveitarstjórnarkosningum næsta haust. „Nú tekur við að skipa þarf undirbúningsstjórn sem fer í að vinna formlegheitin, svo sem samþykktir fyrir nýtt sveitarfélag, undirbúa sveitarstjórnarkosningar og ákveða kjördag. Ýmsum hugmyndum hefur verið velt upp, aðallega hefur verið rætt um apríl/maí á næsta ári.

Síðan þarf að útfæra nánar þær hugmyndir og tillögur sem kosið var um í dag, eins og um stjórnsýsluna. Það þarf að nýta tímann vel þar til ný sveitarstjórn tekur til að undirbúa þær vel þannig að þær byrji að virka sem fyrst. Í því er mikil vinna framundan.“

Þá er eftir að finna nafn á nýja sveitarfélagið. „Það verður nýrrar sveitarstjórnar að taka við þeim kaleik. Ýmsar leiðir hafa verið farnar í gegnum tíðina, oftast hefur verið kallað eftir tillögum og farið í samkeppni en sveitarstjórnin hefur ekki verið bundin af niðurstöðunum heldur haft úrslitavaldið.“

Samstarfsnefndin hefur unnið með vinnuheitið „Sveitarfélagið Austurland.“ Björn efast um að það verði nafn hins nýja sveitarfélags. „Það hefur aldrei verið horft á það sem slíkt, aðeins vinnuheiti. Ég hef ekki trú á að Örnefnanefnd myndi samþykkja það. Ég held að fólki muni finna hentugt nafn sem fari okkur vel til framtíðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.