AFL telur að segja eigi upp kjarasamningum: Gegndarlausar hækkanir til þeirra æðstu

Stjórn og trúnaðarráð AFLs starfsgreinafélags samþykkti á fundi sínum í gær að segja eigi upp núgildandi kjarasamningum. Formaður félagsins segir skattbyrði á láglaunafólk hafa aukist ógnvænlega á síðustu árum.

Áskorun fundarins kemur í kjölfar ályktunar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands frá því fyrr í vikunni um að forsendur kjarasamninga væri brostnar. Boðað er til formannafundar ASÍ á miðvikudag þar sem endanleg ákvörðun verður tekin. Þar hafa formennirnir atkvæðavægi eftir fjölda þeirra félagsmanna sem að baki þeim standa.

Kjarasamningar almenna markaðarins tóku gildi 1. maí 2015 að undangengnum verkföllum og áttu að gilda út árið. Heimild er til að segja þeim upp fyrir lok febrúar og falla þeir þá úr gildi í lok apríl.

„Það var mörkuð ákveðin launastefna á gildistíma samninganna þar sem gert var ráð fyrir að ákveðnir hópar fengju ekki hækkanir umfram aðra. Með úrskurðum kjararáðs og samningum annarra hópa teljum við þessar forsendur brostnar,“ segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs.

Í ályktun fundarins frá í gærkvöldi er talað um „gegndarlausar launahækkanir til æðstu embættismanna, þingmanna og annarra stjórnenda“ sem séu langt umfram þær sem venjulegt launafólk fái. Því aukist mismunur í samfélaginu.

Hjördís Þóra segir ekki ljóst með hvaða kröfur verði farið af stað í samningaviðræður eftir af samningunum sagt upp, um það eigi eftir að móta nánari stefnu.

„Ég hef hins vegar farið um og heyri hvað fólk vill. Fyrst og fremst vill það launahækkanir en unga barnafólkið ræðir mikið skerðingar á barnabótum og vaxtabótum. Það er í raun búið að tapa þeim.“

ASÍ sendi í lok sumars frá sér skýrslu um þróun skattbyrði launafólk frá árinu 1998 þar sem fram kom að hún hefði aukist langmest hjá þeim tekjulægstu. „Hún er ógnvænleg lesning,“ segir Hjördís. „Langstærstur ágóði kjarasamninga hefur verið tekinn af láglaunafólki í formi skerðinga og skattahækkana.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.