AFL: Yfirstéttin berst fyrir að endurheimta fyrri lífsstíl og senda launafólki reikninginn
Almennt launafólk gæti á næstu misserum þurft að borga niðurfellingu skulda hinna tekjuhærri. Inn á þær brautir virðist umræðan ætla ári fyrir kosningar. Þeir sem misstu fyrri stöðu í hruninu berjast fyrir að ná aftur fyrri lífsstíl. Enn sé þó eftir að leiðrétta hlut þeirra sem fengu þyngsta skellinn og misstu vinnuna.
Þetta var meðal þess sem fram kom í 1. maí ávarpi AFLs starfsgreinafélags til félagsmanna í dag. „Í efnahagshruninu röskuðust hagsmunir og staða ólíkra hópa innan samfélagsins breyttist. Baráttan nú er ekki síst barátta þeirra sem glötuðu hvað mestu í hruninu – barátta fyrir því að endurheimta fyrri stöðu – auð og áhrif.
Við fengum öll á okkur skell – sum okkar þyngri en aðrir og kannski í okkar augum var skellurinn þyngstur fyrir þá sem misstu atvinnuna – því atvinnuleysi ógnar heilsu fólks, efnahag og lífsgæðum.
En þeir hópar sem hafa gert sig mest áberandi og náð mestri athygli eru ekki að berjast fyrir hagsmunum atvinnulausra – eru ekki að berjast fyrir því að gripið verði til aðgerða sem komi hagkerfinu í gang að nýju og skapi hagvöxt þannig að unnt verði að byggja upp til framtíðar.“
Niðurfelling skulda stenst ekki skoðun
Í ávarpinu er varað við að „háværasta umræðan“ sé orðin um skuldir og flata niðurfellingu þeirra. Þá vilji oft gleymast hverjir raunverulega eigi eftir að taka skellinn af slíkri aðgerð.
„En sum mál standast ekki lengri skoðun – því til að afhenda fólkinu í landinu einhver gæði – fjármagn eða önnur verðmæti – þarf að taka þau sömu gæði af einhverjum öðrum. Og hverjum skildi vera til að dreifa til að taka þessi gæði af – fólkinu í landinu. Það eru ekki aðrir til staðar til að greiða skatta eða leggja fram verðmæti en fólkið og fyrirtækin i landinu – þannig að til að aðstoða fólkið í landinu fjárhagslega þarf að skattleggja eða ganga á eignir fólksins í landinu.
Við sjáum öll að þetta er endaleysa og umræða sem er best til þess fallin til að slá ryki í augu fólks – en það er ekkert skrítið að þessi umræða eigi upp á pallborðið. Hagsmunir þeirra sem hæst flugu í góðærinu og mestu töpuðu af eignum og afkomu í hruninu – eru auðvitað þeir að þeim eignum sem þó eru til ennþá – verði skipt upp að nýju.“
Reikningarnir eru alltaf sendir á launafólk
Vísað er til talna frá opinberum aðilum að efsti tekjuhópurinn, fólk með yfir 500 þúsund eftir skatta, hafi tapað mestu af tekjunum í hruninu og jafnframt verið skuldsettastur. Sá hópur berjist fyrir því að endurheimta fyrri lífsstíl.
„Það er sami hópur og var skuldsettastur – hafði veðsett eigur sínar upp í topp og oft lengra til að viðhalda lífsstíl og til að fjárfesta í góðærinu.Og úr hvaða tekjugeira kemur stærstur hluti þingmanna og hvaðan koma álitsgjafar fjölmiðla og þeir sem stjórna fjölmiðlum?
Jú – helstu áhrifavalda samfélagsumræðu í dag eru úr þessum efsta tekjufimmtung og því er umræðan svo einlit og öfgakennd. Það er heil stétt fólks að berjast – ekki fyrir afkomu sinni heldur fyrir lífsstíl – ekki fyrir þaki yfir höfuðið heldur fyrir því að reyna að endurvinna eignir sínar.
Reikningurinn verður sendur á launafólk – og það vitið þið sem hér eruð. Reikningarnir eru alltaf sendir á launafólk.“