Áfram bætt í vöktun vegna ofanflóða á Austfjörðum

Veðurstofa Íslands og fleiri aðilar hafa undanfarna mánuði unnið að því að bæta vöktun og mögulegt viðbragð vegna ofanflóða á Austfjörðum. Ný tæki og aðgerðir eru komnar í gagnið fyrir veturinn.

Á síðustu dögum hafa verið haldnir tveir íbúafundir um ofanflóðamálefni, annars vegar á Seyðisfirði á laugardag og hins vegar í Neskaupstað á þriðjudagskvöld. Á báðum stöðum var farið yfir hvernig stöðugt hefur verið haldið áfram að bæta mælingar og viðbragð í kjölfar aurskriðnanna í desember 2020 og snjóflóðanna í mars 2023.

Jón Kristinn Helgason, frá Veðurstofunni, fór yfir hvernig engin formleg skriðuvakt hefði verið á veturna fyrir desember 2020, aðeins sérfræðingar kallaðir til þegar ástæða var talin til. Fá sjálfvirk mælitæki hefðu verið til staðar en meira treyst á söguleg gögn, sjónrænt mat og þekkingu. „Það voru margar ákvarðanir sem hefðu mátt vera betri,“ sagði hann á laugardag.

Í dag er komin skriðuvakt allan ársins hring. Um tíu þúsund mæligildi berast frá um 80 mælipunktum í Seyðisfirði, til viðbótar við gögn frá radartæki í Vestdal og veðurstöð sem reist var á Bjólfi í fyrrasumar. Hún sér veður sem kemur inn fjörðinn eða úr nágrenninu. Sjálfvirk tæki vinna úr gögnunum upp í hendur sérfræðinga.

Uppbygging mælikerfis í Neðri-Botum og Þófa er nú lokið. Á næsta ári verður gefin út tækniskýrsla fyrir Neðri-Botna þar sem teknar verða saman þær upplýsingar sem fyrir liggja úr jarðfræðirannsóknum. Jón Kristinn sagði að miklar upplýsingar hefðu fengist með að skoða ofan í skriðusárin. Í framhaldinu verða gefnar út árlegar skýrslur.

Stafræn rýmingarkort bæta margt


Engin rýmingarkort voru til vegna aurskriða á sínum tíma, en þau urðu hreinlega til í aðgerðunum. Í Neskaupstað voru kortin til, en á þeim komu í ljós gallar sem ágerðust þegar rýma þurfti mörg byggðarlög á sama tíma.

Verið er að leggja lokahönd á að gera kortakerfið stafrænt. Þá hefur verið unnið að því að skýra þau, bæði með betri auðkenningu rýmingarreita, en ekki síst með að tryggja að línur, sem skilja milli reita, skeri ekki hús. Eins er horft betur eftir því hvort rýmingar hafi áhrif á að komu að húsum. Neskaupstaður er fyrsta byggðarlagið hérlendis þar sem rýmingarkortin eru endurskoðuð á þennan hátt.

Um áramótin tók til starfa sérfræðingur á ofanflóðadeild Veðurstofunnar með starfsstöð í Neskaupstað. Að undanförnu hefur mælitækjum verið fjölgað og komnir eru snjódýptarmælar í Nes- og Bakkagiljum.

SMS þjónusta á Fagradal


Unnið hefur verið með skíðasvæðunum í Stafdal og Oddsskarð að því að yfirfara verklag þeirra. Það er nú komið í fastari skorður og bætt hefur verið í búnað og þjálfun starfsfólks. Stefnt er að gerð hættumats fyrir svæðið í Stafdal á næsta ári en það er til fyrir Oddsskarð.

Þá mun Veðurstofan vinna sérstaka snjóflóðaspá fyrir Grænafell en þaðan hafa reglulega fallið snjóflóð á veginn yfir Fagradal. Vegagerðin býður fólki að skrá sig á lista þannig það fái sent SMS, fyrst þegar óvissuástand skapast og svo áfram eftir því sem staðan breytist.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar