Áfram verði skólastarf í öllum byggðakjörnum

Nýtt sveitarfélag á Austurland gæti öðlast meiri slagkraft í stoðþjónustu við félags- og fræðslumál en verið hefur. Endurmeta þarf þátttöku þess í starfi Skólaskrifstofu Austurlands. Mikilvægt er að áfram verði haldið úti fjölbreyttu fræðslustarf að lokinni sameiningu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði starfshóps um fræðslu- og félagsmál. Vinna hópsins er hluti af sameiningarviðræðum Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs.

Þar er lögð áhersla á að nýta hagkvæmni í stærra sveitarfélagi til að bæta gæði þjónustunnar, stytta biðtíma eftir sérfræðingum og tryggja skilvirkni hennar.

Hópurinn tók fyrir samstarf mögulegs sveitarfélags við Skólaskrifstofu Austurlands en framlög sveitarfélaganna fjögurra nema 45% af heildarkostnaði aðildarsveitarfélaga skrifstofunnar.

Í minnisblaði hópsins segir að þrátt fyrir að skrifstofan hafi áð að skipa hæfu starfsfólki hafi hún ekki náð að uppfylla þarfir skóla, sérstaklega ekki leikskóla þar sem bið eftir greiningum hjá sálfræðingum sé of löng.

Hópurinn ræddi hugmynd um að sameina skóla- og félagsþjónustusvið í eitt fjölskyldusvið þar sem hægt væri að samnýta fjármuni og sérfræðinga sviðanna. Í framhaldinu þurfi að kanna hvort nýtt sveitarfélag verði áfram aðili að Skólaskrifstofu Austurlands og hvernig hafa megi áhrif á þjónustu hennar eða hvort réttara sé að slíta samstarfinu og nýti sjálft þá fjármuni sem runnið hafa til hennar.

Í minnisblaði hópsins er skýrt tekið fram að vegna fjarlægða milli byggða verði áfram að vera skólastarf í öllum hverfum nýs sveitarfélags. Á móti verði samstarf skólanna aukið og þróuð fjarkennsla, meðal annars með það fyrir augum að auka val elstu nemenda í minni skólunum.

Niðurstöður hópanna eru teknar til umræðu á íbúafundum um mögulega sameiningu sem haldnir eru í þessari viku. Í kvöld verður fundað í Herðubreið á Seyðisfirði milli klukkan 18 og 21.

Frá fundi á Borgarfirði í gærkvöldi. Mynd: Magnús Þorri Jökulsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar