Afstaða Lyfjastofnunar til ræktunar iðnaðarhamps óbreytt
Afstaða Lyfjastofnunar til innflutnings á fræjum til ræktunar iðnaðarhamps er óbreytt þótt lögreglustjórinn á Austurlandi hafi fellt niður mál á hendur ábúendum á bænum Gautavík í Berufirði. Rannsókn lögreglu hófst eftir ábendingu stofnunarinnar.Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurnum Austurfréttar.
Hjónin Pálmi Einarsson og Oddný Anna Björnsdóttir fluttu síðasta vor inn fræ fyrir iðnaðarhamp og gróðursettu í Gautavík. Það gerðu þau eftir að hafa fengið staðfestingu frá Matvælastofnun og í ljósi þess að Lyfjastofnun hafði áður gefið út að slík fræ heyrðu ekki undir lög um ávana- og fíkniefni þar sem innihald virka efnisins THC væri það lágt að það gæti ekki valdið vímu.
Athugun lögreglu hófst í nóvember að fenginni ábendingu Lyfjastofnunar. Þrír lögregluþjónar fóru á bæinn og tóku sýni úr ræktuninni. Greining á þeim leiddi í ljósi að THC fannst ekki í mælanlegu magni. Málið var síðan fellt niður í lok mars, en í bréfi lögreglustjórans á Austurlandi segir að ábúendurnir hafi talið sig hafa tilskilin leyfi og verið í fullum rétti.
Í svari Lyfjastofnunar segir að stofnunin hafi sent lögreglu ábendingu eftir að henni varð það ljóst að ræktun á kannabisplöntun ætti sér stað í umdæminu, í samræmi við eftirlitshlutverk stofnunarinnar. Vísað er í ákvæði laga um ávana- og fíkniefni um að inn- og útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla, tilbúningur og varsla ávana- og fíknilyfja sé óheimil. Stofnunin geti þó veitt sérstakt leyfi í ákveðnum tilfellum.
Í svarinu er því hafnað að stofnunin hafi á undanförnum árum þrengt túlkun sína á lögunum. Því sé afstaða stofnunarinnar um að innflutningur fræja til ræktunar á iðnaðarhampi falli undir ákvæði ávana- og fíkniefnalaga óbreytt.
Framhaldið óákveðið
Lyfjastofnun óskaði ekki eftir neinum upplýsingum frá ábúendum áður en ábendingin var send lögreglu. Í svari við spurningu Austurfréttar um hvernig það hafi samræmst meðalhófsreglu stjórnsýslulaga segir að ákvörðun um úrvinnslu ábendingarinnar hafi verið lögreglunnar. Leyfi Matvælastofnunar fyrir innflutningi fræjanna hafi ekki haft nein áhrif á ákvörðun stofnunarinnar um að koma ábendingunni á framfæri.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um áframhald málsins af hálfu stofnunarinnar. Eftir sé að fara yfir forsendur niðurfellingar málsins. Það verði gert við fyrsta mögulega tækifæri en mikið álag hefur verið á Lyfjastofnun sem hefur það hlutverk að tryggja nægar lyfjabirgðir í landinu í covid-19 faraldrinum. Það verkefni sé í algjörum forgangi. Því sé ekki ljóst hvenær farið verði yfir ákvörðun lögreglunnar. Bréf lögreglustjórans á Austurlandi er dagsett 20. mars. Málsaðilar geta áfrýjað niðurstöðunni til ríkissaksóknara innan mánaðar.
Enn er því óljóst hvort mögulegt verði að gera tilraunir með ræktun iðnaðarhamps á Íslandi í sumar, en Oddný Anna hefur sagt að nokkrir aðilar hafi áhuga á því. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hefur lýst því yfir að það muni í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, sem er yfir Lyfjastofnun, gera ráðstafanir til að að heimila með skilyrðum ræktun iðnaðarhamps hér á landi til að auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði. Aðgerðin er hluti af aðgerðum ráðuneytisins til að mynda viðspyrnu við áhrifum covid-19 faraldursins.