Áhyggjur af áhrifum virkjunar Þverár á votlendi

Skipulagsstofnun telur skerðingu á votlendi neikvæðustu umhverfisáhrif fyrirhugaðar virkjunar í Þverá í Vopnafirði. Stofnunin vill að fundin verði ný leið fyrir ríflega 5 km þrýstipípu, sem leiðir vatn úr miðlunarlóni í stöðvarhús.

Þverá kemur úr vestanverðum Smjörfjöllum og rennur um 19 km leið í Hofsá. Gert er ráð fyrir að áin verði stífluð í um 250 metra hæð og vatni verði veitt úr miðlunarlóni í þrýstipípu 5,5 km leið að stöðvarhúsi, skammt ofan við þar sem hún fellur í Hofsá. Með þessu fæst um 200 metra fallhæð.

Gert er ráð fyrir að stíflan verði 110 metra löng, allt að 18 metrar á hæð og lónið 1,5 hektarar að stærð. Áætlað afl virkjunarinnar er 6 MW. Samkvæmt lögum er ekki skylt að meta umhverfisáhrif virkjana sem eru minni en 10MW en virkjunaraðilinn, Þverárdalur ehf. sem er í eigu Arctic Hydro, ákvað að fara með virkjunina í fullt umhverfismat.

Ekki fullnægjandi rök fyrir legu þrýstipípu

Álit Skipulagsstofnunar á matinu liggur nú fyrir en samkvæmt því eru neikvæðustu áhrif virkjunarinnar á votlendi, einkum út frá þrýstipípunni og vegi sem liggur meðfram henni. Virkjunarframkvæmdirnar munu hafa í för með sér nokkra skerðingu á þremur votlendissvæðum og skerða jaðar þriggja annarra, sem öll eru stærri en tveir hektarar og njóta sem slík sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Samkvæmt lögunum ber að forðast að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til, sem eru þá brýnir almannahagsmunir.

Stofnunin telur að Þverárdalur ehf. hafi ekki sýnt fram á bráðnauðsynlegt sé að fara með pípuna og veginn í gegnum votlendið. Í álitinu er tekið undir athugasemdir Umhverfisstofnunar sem vildi að kannað yrði að fara vestur fyrir votlendið og bætt við að fyrirtækið hafi ekki fært fullnægjandi rök fyrir að fjalla ekki um þann kost.

Samkvæmt samantekt Skipulagsstofnun bárust svör frá Þverárdal um að reynt hefði verið að velja þrýstipípunni leið þannig að hún færi sem minnst um votlendi og sem fjærst Þverárgljúfri, án þess að lengja leiðina um leið. Ef farið væri lengra til vesturs kæmi það niður á hagkvæmni virkjunarinnar. Auk þess væri ávinningur þess að forðast votlendið takmarkaður því alls óvíst sé hvort eða hve mikið mýrarnar þorni.

Þetta svar telur Skipulagsstofnun ekki fullnægjandi og fer því fram á að fundin verði ný leið fyrir þrýstipípuna og þar með veginn þar sem dregið verði eins og kostur er á raski á vernduðum votlendissvæðum. Reynist það óframkvæmanlegt sé brýnt að setja skilyrði fyrir framkvæmdinni um að endurheimt verði jafn mikið votlendi og verður fyrir áhrifum. Í heild telur stofnunin að áhrif virkjunarinnar á góður á svæðinu séu talsvert neikvæð, en minnki í að vera nokkuð neikvæð finnist ný leið fyrir pípuna og veginn.

Alls veldur virkjunin raski á gróðurlendi sem þekur um 8 hektara, þar af 1,5 hektara sem njóta sérstakrar verndar. Utan votlendissvæðanna eru áhrif á gróður talin nokkuð neikvæð en staðbundin. Á svæðinu hafa hvorki fundist friðlýstar plöntur né á válista.

Töluvert inngrip í lítt snortið svæði

Skipulagsstofnun telur að bygging stíflu, stöðvarhúss, þrýstipípu feli í sér töluvert inngrip og neikvæð áhrif á lítt snortið svæði. Fyrirsjáanlegt sé að upplifun ferðafólks af Þverárdal sem lítt snortnu svæði breytist töluvert. Þó geti vegurinn inn á svæðið opnað nýjar leiðir fyrir ferðamenn og litskrúðugt Þverárgilið haft aðdráttarafl með góðri kynningu og innviðum. Það er nokkuð neðar en stíflan og fjarri öllum mannvirkjum. Foss um 300 metrum neðan við stífluna hverfur þar sem ekki verður teljandi vatni í ánni á þeim kafla.

Stöðvarhúsið verður á vesturbakka árinnar í landi Hrappsstaða, rétt ofan við brú á Sunnudalsvegi. Stöðvarhúsið, sem verður á stærð við stóran sumarbústað, og frárennslisskurðurinn eru einu mannvirkin sem sjást úr alfaraleið. Skipulagsstofnun telur að sjónræn áhrif verið mest á framkvæmdatímanum en þess utan verði erfitt að fella veg og þrýstipípu að landslagi. Mikilvægt sé að reyna að fella öll mannvirki sem best að landslaginu.

Hreiður fálka nær mannvirkjum en talið var

Fálki heldur til í Þverárgili. Áhrif á hann eru talin ráðast af því hvar hann býr sér hreiður á framkvæmdatímanum. Í rannsóknum í fyrra kom í ljós að hann hafði gert sér hreiður talsvert nær vegstæðinu en talið var. Skipulagsstofnun leggur áherslu á að fylgst verði með hvar fálkinn kemur sér fyrir og öll tilhögun um framkvæmdir borin undir Náttúrufræðistofnun. Verði pípan og vegurinn færð til vesturs fjarlægjast þau það svæði sem fálkinn bjó á í fyrra. Almennt er talið að virkjunin hafi nokkuð neikvæð áhrif á fugla svæðið sem bú- og varpssvæði. Áhrifin verði mest á framkvæmdatíma en mögulega varanleg.

Þverá er næringarlítil og lífefnasnauð. Í henni finnast bleikjuseiði en engin veiði er í ánni. Áhrif af framkvæmdunum á vistkerfi Hofsár eru því talin óveruleg sem og áhrif á vatnalíf.

Samkvæmt núverandi aðalskipulagi Vopnafjarðarhrepps er svæðið sem um ræðir skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Áður en framkvæmdaleyfi verður veitt þarf að liggja fyrir breyting á aðalskipulaginu og deiliskipulag af virkjunarsvæðinu. Hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að hefja vinnu við breytingar á aðalskipulaginu vegna virkjunarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar