Ákærður fyrir að falsa greiðslukvittun

Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur ákært karlmann á fertugsaldri fyrir skjalafals með að því að hafa framvísað falsarði greiðslukvittun í milliríkjaviðskiptum.

Samkvæmt ákæru framvísaði maðurinn síðasta sumar með tölvupóstsendingu falsaðri kvittun fyrir greiðslu fyrirtækis í hans eigu upp á 3750 sterlingspund, eða tæplega 600 þúsund krónur íslenskar á núverandi gengi.

Kvittunina á maðurinn að hafa búið til sjálfur í nafni Landsbankans til að fyrirtæki í Malasíu sendi fyrirtæki mannsins vörur sem hann hafði pantað að utan.

Fölsunin mun hafa falist í því að hann notaði greiðslukvittun vegna fyrri viðskipta fyrirtækjanna sem hann prentaði út úr heimabanka og breytti dagsetningum þannig að umrædd fjárupphæð virtist hafa verið millifærð á tilskildum tíma, þótt svo væri ekki.

Brot á lögum um skjalafals geta varðað allt að átta ára fangelsi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar