Ákærður fyrir að nauðga fyrrverandi kærustu sinni
Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann fyrir að hafa nauðgað fyrrverandi kærustu sinni og beitt hana grófu ofbeldi. Árásirnar áttu sér stað í nágrenni Egilsstaða í lok júní í fyrra.Samkvæmt ákæruskjali átti árásin sér stað í og við bifreið sem stóð á malarplani á móts ónefndan bæ við Borgarfjarðarveg, skammt utan við Egilsstaði.
Maðurinn er sagður hafa svipt konuna frelsi í minnst 2-4 tíma, meðal annars með að halda henni þannig hún komst ekki úr bílnum.
Á þeim tíma nauðgaði hann henni auk þess að beita hana stórfelldu líkamlegu ofbeldi. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa slegið hana í andlitið, hent henni og dregið hana eftir jörðinni, tekið hana ítrekað kverkataki, ýtt henni og sparkaði hana. Auk þessa hótaði maðurinn konunni og fyrrverandi manni hennar ítrekað líflátu.
Með þessu hafi heilsu og velferðar konunnar verið ógnað á alvarlegan, sársaukafullan og meiðandi hátt.
Maðurinn er ákærður fyrir nauðgun, frelsissviptingu og brot í nánu sambandi. Brot hans geta varðað allt að 16 ára fangelsi. Konan hefur sjálf höfðað einkamál þar sem hún krefst 2,5 milljóna króna í miskabætur.
Málið var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Það styður við heimildir Austurfréttar um að maðurinn sé ekki búsettur á Austurlandi.