Ákveðið að rýma utanverðan Seyðisfjörð
Ákveðið hefur verið að grípa til rýminga á svæðinu undir Strandartindi í utanverðum Seyðisfirði. Svæðið verður lokað klukkan 18:00 í kvöld.Samkvæmt frétt ofanflóðadeildar Veðurstofunnar er um að ræða reiti 4, 5, 6, og 7a, það er að segja öll húsin sem standa utan við björgunarsveitarhúsið.
Á þessu svæði er fyrst og fremst atvinnuhúsnæði, meðal annars meðal annars bæjarskrifstofurnar, frystihúsið, fiskimjölsbræðslan og Vjelsmiðja Jóhanns Hansonar sem hýsir sýningu Tækniminjasafns Austurlands. Síðastnefnda húsið skemmdist töluvert í skriðunum 2020. Þar var lagfært og í sumar opnuð þar ný sýning á vegum safnsins.
Hús með fastri búsetu eru utan svæðisins en þó hefur fólk tímabundna dvöl í húsunum. „Rýmingin er hafin. Það er verið að ganga í húsin og tryggja að allir verði farnir úr þeim klukkan 18:00,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.
Miðað við rýminguna virðast ekki áhyggjur af miklum fleka sem skriðan 2020 skildi eftir og hefur stundum verið nefndur Afríka, en brot úr honum kæmu trúlega niður farveg Búðará. Meiri áhyggjur virðast vegna lækja og áa sem teygja sig efst upp í Strandartind.
Lýst hefur verið yfir hættustigi almannavarna á Austurlandi frá sama tíma sem þýðir að viðbragðsaðilar eru til taks ef á þarf að halda auk þess sem vöktun er efld. Íbúar hafa verið hvattir til að fylgjast áfram náið með tilkynningum. Ekki hefur enn verið gripið til lokana á vegum en Kristján Ólafur segir ferðaveðrið ekki gott.
Veðurstofan hefur endurskoðað litakóða viðvarana. Viðvörun fyrir veðurspásvæðið Austurlandi að Glettingi hefur verið lækkuð úr appelsínugulu í gult. Appelsínugul viðvörun fyrir Austfirði stendur enn frá miðnætti.
Samkvæmt yfirliti ofanflóðadeildar Veðurstofu Íslands er búist við úrkomu upp að allt að 10-15 mm/klst þar sem mest rignir í fjöll á Austurlandi.
Vatnshæð í borholum á Eskifirði og Seyðisfirði er lág enda þurrt í veðri síðustu vikur. Létt rigning undanfarna daga hefur bleytt efsta hlut jarðvegarins. Því ætti jarðvegurinn að geta tekið vel við talsverðri úrkomu.
Húsin sem um ræðir eru:
Strandarvegur 39 – 35 – 33 – 29 -27 – 23 -21 – 19 til 15 – 13 – 2 – 1 til 11.
Hafnargata 57 – 54 – 53a -53 – 52a – 52 – 50 – 51 – 49 – 48b – 48 – 47 – 46b 46 – 44b – 44 – 43 – 42b – 42 – 40 – 38 – 25.