Alcoa Fjarðaál vann liðakeppni Mottumars

Lið Alcoa Fjarðaáls vann liðakeppni Mottumars, átaks Krabbameinsfélagsins sem er tákn félagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá karlmönnum.



Alcoa Fjarðaál safnaði 668 þúsund krónum, en í heildina söfnuðust 6,2 milljónir í átakinu í ár. Actavis var í öðru sæti í liðakeppninni með 263.500 krónur og þjónustuver Símans í því þriðja með 346.233 krónur.

Er þetta í sjöunda skiptið sem keppnin er handin og er þetta sjötta árið í röð sem Fjarðaál tekur þátt.

Lið Fjarðaáls hefur alltaf verið í toppbaráttunni á landsvísu, en það hefur ýmist lent í öðru, þriðja eða fjórða sæti. Fyrirtækið hefur einnig stutt dyggilega við liðið með myndarlegu fjárframlagi.

Í ár lagði Alcoa 600 þúsund í átakið, en velunnarar keppenda 68 þúsund.

„Ég sagði það í upphafi keppni að nú ætlaði ég okkur að vinna og stóð við það. Fyrirtækið lagði okkur hressilega lið og þurftu páskaegg starfsfólks að víkja, en það eru allir sáttir við það, þetta skiptir mun meira máli,“ segir Óðinn Ólafsson, vélvirki, en hann hefur haldið utan um liðakeppni fyrirtækisins frá upphafi.

Sjálfur var hann ekki með mottu í ár, heldur er að safna myndarlegu alskeggi. „Við lítinn fögnuð eiginkonunnar. Ég má vera svona þar til í maí en er gert að raka mig fyrir fermingarmyndatökuna, þar er til siðs að vera vel til hafður og snyrtilegur,“ segir Óðinn hlæjandi.

Ljósmynd: Geir Sigurpáll Hlöðversson, framkvæmdastjóri málmvinnslu, tekur á móti verðlaununum. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.