Alcoa Fjarðaál krefur skipafélögin um rúma þrjá milljarða vegna samkeppnisbrota
Alcoa Fjarðaál hefur stefnt Samskipum og Eimskipafélagi Íslands vegna samkeppnisbrota skipafélaganna. Álverið fer fram á rúmar þrjá milljarða króna í skaðabætur.Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskipi í dag. Þar segir að Alcoa krefji skipafélögin um 3,086 milljarða króna auk dráttarvaxta frá 24. maí 2024.
Eimskip gekk sumarið 2021 frá sátt við Samkeppniseftirlitið. Í henni fólst viðurkenning á brotum og sektargreiðsla upp á 1,5 milljarða. Fyrir um það bil sléttu ári birti Samkeppniseftirlitið niðurstöður sínar á rannsókn á samkeppnisbrotum Eimskipa og Samskipa. Samskip voru þar sektuð um 4,2 milljarða.
Hvað eiga skipafélögin að hafa gert?
Samkeppniseftirlitið telur samráð Eimskips og Samskipa gegn Alcoa Fjarðaáli meðal alvarlegustu brotanna. Samskip fengu álútflutninga fyrir Alcoa Fjarðaál eftir útboð árið 2007. Haustið 2008 var hins vegar stokkað upp í leiðakerfi skipafélaganna samkvæmt samkomulagi sem þau höfðu gert um sumarið, samkvæmt Samkeppniseftirlitinu.
Fól það í sér skerðingu þjónustu Samskipa við álverið sem skapaði þá þraut að halda í ábatasöm viðskiptin. Það var leyst með samkomulagi við Eimskip um að flytja út það ál sem Samskip gat ekki tekið en líka tóma gáma austur á Reyðarfjörð.
Samkeppniseftirlitið segir Samskip hafa hækkað verðið þegar ljóst væri búið væri að stinga dúsu upp í samkeppnisaðilann þannig hann byði ekki á móti. Gegn þessu hafi Alcoa barist án árangurs þar til nýr aðili fékk flutningana að undangengnu útboði árið 2013. Samskip hafa ávallt neitað sök og meðal annars vísað til þess að bankahrunið haustið 2008 hafi leitt til endurskipulagningar leiðakerfisins.
Eimskip tekur til varna
Í tilkynningu Eimskips í dag segir að karfa Alcoa Fjarðaáls byggi á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica frá í febrúar. Þar var tap íslensks samfélags vegna samráðsins talið nema 62 milljörðum króna.
Eimskip segir vankanta á vinnu þeirra slíka að minnisblaðið í heild sé ónothæft sem mat á meintu tjóni og hafnar því kröfu Alcoa Fjarðaáls. „Það er mat félagsins að ekkert tilefni sé til málsóknar stefnanda, enda séu skilyrði skaðabótaskyldu ekki uppfyllt. Þá er ætlað fjártjón stefnanda og þar með fjárkrafan engum haldbærum gögnum studd. Félagið hefur falið lögmanni þess að taka til varna í málinu,“ segir í yfirlýsingu Eimskips.
Þau svör fengust hjá Alcoa Fjarðaáli í dag, þegar Austurfrétt leitaði eftir viðbrögðum, að félagið myndi ekki tjá sig um málið.