Knúðu fram 131% hækkun á útflutningi Alcoa Fjarðaáls með samráði

Útboð á flutningum Alcoa Fjarðaáls árið 2013 átti stóran þátt í því að stoðirnar brustu í áralöngu samráði Samskipa og Eimskips á íslenska flutningamarkaðinum. Álverið varð hins vegar rækilega fyrir barðinu á því á meðan því stóð. Ljóst er að upphæðirnar sem um ræðir nema hundruðum milljónum króna.

Þetta kemur fram í úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem birtist í gær. Þar er farið yfir margþætt samstarf íslensku fyrirtækjanna tveggja sem hófst sumarið 2008 og stóð hið minnsta fram til ársins 2013. Rannsókn málsins hefur staðið í áratug og voru gögn meðal annars haldlögð í húsleit.

Málarekstri Samkeppniseftirlitsins gegn Eimskipum lauk sumarið 2021 með sátt. Hún fól í sér viðurkenningu á brotum og greiðslu upp á 1,5 milljarða króna. Sekt Íslandsbanka fyrr á árinu var 1,2 milljarðar. Málinu gegn Samskipum var haldið áfram og í gær tilkynnti Samkeppniseftirlitið að það hefði sektað fyrirtækið um 4,2 milljarða króna. Það er langhæsta sekt Íslandssögunnar.

Um leið var úrskurðurinn opinberaður þar sem rakið er hvernig samráðið fór fram. Það snérist um að hafa stjórn á verðlagningu á flutningum á bæði sjó og landi. Hluti af því var að skipta með sér stærstu fyrirtækjum landsins og reyna að ná eins miklu út úr þeim og kostur var. Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði var í þeim hópi.

Skera niður þjónustuna, hækka verðið og halda í viðskiptin


Samskip fékk álútflutninginn árið 2007 að undangengnu útboði. Flutt var út frá Reyðarfirði til Rotterdam í Hollandi og Immingham í Bretlandi. Byrjað var að sigla árið 2007 þegar álverið hóf framleiðslu en flutningarnir jukust framleiðslan komst á fullt árið eftir.

Fundur æðstu stjórnenda flutningafyrirtækjanna sumarið 2008 og gögn undir heitinu „Nýtt upphaf“ marka að mati Samkeppniseftirlitsins upphaf áralangs samráðs um skiptingu íslenska flutningamarkaðarins. Á þessum tíma virðast bæði félögin hafa verið með ónýtta flutningsgetu. Markmið þeirra var að auka nýtinguna með að draga úr þjónustu en auka tekjur. Þetta var gert með að draga úr innflutningsgetu en tryggja að hægt væri að flytja nóg til að til að ná sem mestu út úr útflytjendum á borð við Alcoa og sjávarútvegsfyrirtækjunum, að því er segir í samantektinni.

Til þess þurftu þau að tryggja að hitt myndi ekki á sama tíma ná til sín mikilvægum viðskiptavinum. Alcoa Fjarðaál var sannarlega mikilvægur viðskiptavinur, í úrskurðinum segir að fyrirtækið hafi verið stærsti útflytjandinn með Samskipum.

Taktíkin gagnvart Alcoa


Á þessari aðferðafræði grundvallaðist samsæri flutningafyrirtækjanna gegn Alcoa Fjarðaáli. Í kjölfar samráðsins yfir sumarið var haustið 2008 byrjað að stokka upp leiðakerfi beggja flutningsfyrirtækjanna, fyrst Eimskip í ágúst og Samskip í október. Við samdrátt Eimskips féllu niður siglingar frá Reyðarfirði til Bretlands sem hamlaði útflutningi með fisk á vegum Eimskips frá Austfjörðum. Í staðinn kannaði félagið möguleikann á að senda fiskinn með Samskipum til Færeyja og þaðan áfram.

Samskip fækkaði um eitt skip í leiðakerfi sínu, fór úr fjórum í þrjú. Þetta þýddi að annað þeirra tveggja skipa Samskipa, sem sigldu til Mjóeyrarhafnar, var tekið úr umferð. Um leið lengdist tíminn á milli skipakoma í höfnina, við litla ánægju Alcoa.

Gögn Samkeppniseftirlitsins sýna að á síðsumars og haustið 2008 voru reglulegir fundir og skeytasendingar á milli bæði æðstu stjórnenda fyrirtækjanna sem og innan þeirra. Þetta ber þess merki að lagt sé á ráðin um hvernig best sé að standa að flutningum fyrir Alcoa til að báðir aðilar hafi sem mest út úr þeim. Í gögnum frá Samskipum er beint út talað um taktík gagnvart álverinu. Eftirlitið segir lykilstjórnendur fyrirtækjanna hafa átt ítrekuð ólögmæt samskipti.

Fleiri íslensk stórfyrirtæki eru nafngreind í gögnum fyrirtækjanna þar sem lagt virðist á ráðin um að skipta með sér íslenska flutningamarkaðinum, meðal annars með að ágirnast ekki stóra viðskiptavini hvors annars. Þess vegna kemst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að þau hafi haft með sér ólöglega markaðsskiptingu. Þessi aðferðafræði virðist ekki hafa verið eindæmi. Á einhverjum tímapunkti virðist hafa verið rætt um að Samskip hætti að sigla á Grundartanga en nýta þjónustu Eimskips þar þegar á þyrfti að halda. Að sama skapi myndi Eimskip ekki sigla til Reyðarfjarðar en nýta þar þjónustu Samskipa.

Eimskip fær sneiðar af kökunni


Þraut Samskipta fólst því í að halda í sinn mikilvægasta viðskiptavin og fá hann til að borga meira en skerða þjónustuna á sama tíma. Of mikill niðurskurður gæti orðið til þess að Alcoa Fjarðaál færi annað með flutninga sína.

Lausnin var að skaffa Eimskipi tvær sneiðar af kökunni. Önnur þeirra var að Eimskip flutti það ál sem Samskip gat ekki tekið, það er umfram það sem sirka eitt skip annaði. Samkeppniseftirlitið segir gögn frá þessum tíma sýna að fyrirtækin hafi unnið sameiginlega að þessari lausn.

Hin var flutningur milli Reyðarfjarðar og Reykjavíkur. Tilboð Samskipa byggði á að fyrirtæki tæki innflutningsgáma sem kæmu flestir fullir af vörum inn til höfuðborgarsvæðisins og flytti þá tóma austur þar sem þeir væru fylltir af áli. Þetta virðist hafa gengið eftir því hluti af breytingu leiðakerfis Samskipa í lok október 2008 var að félagið hætti siglingum milli Reyðarfjarðar og Reykjavíkur. Eimskip var með þær. Eftirlitið telur flutningafyrirtækin hafa haft ólögmætt samráð um lán, leigu og flutninga á gámum, ekki síst tengt Alcoa. Nefnt er að þetta hafi vakið misjöfn viðbrögð starfsmanna neðar í keðjunni, þeim þótt þetta fáránlegt og stuðningurinn við samkeppnisaðilann helst til of mikill. Samskip lenti í vandræðum með tóma gáma sem eftirlitið telur að hefði getað opnað Eimskipi tækifæri til að ná í viðskipti álversins.

Eitt af því sem Samkeppniseftirlitið finnur að er að félögin hafi haft með sér samráð um skipaafgreiðslu í Mjóeyrarhöfn frá árinu 2007 og að minnsta kosti fram í júní 2013. Eimskip lestaði álið fyrir Samskip og afgreiddi aðrar vörur. Eftirlitið bendir á að slík vinnubrögð séu bæði dæmi um það samstarf sem ætíð hafi verið markmið áætlunarinnar „Nýtt upphaf“ en einnig veitt Eimskipi nákvæmar upplýsingar um alla flutninga Samskipa um Mjóeyrarhöfn. Það hafi aftur auðveldað fyrirtækinu útreikninga þegar fyrirtækin stilltu sig saman við að breyta siglingaleiðunum þegar leið á árið 2008.

Þann 17. september það ár hittust framkvæmdastjórar innanlandsdeilda fyrirtækjanna á fundi í Smáralind. Sjóflutningarnir eru einnig sagðir hafa verið þar á dagskrá og unnið að því fyrirkomulagi sem að undan er lýst.

Alcoa reyndi að hafna hækkunum


Tveimur dögum síðar byrjar Samskip viðræður við Alcoa Fjarðaál um að hækka verðið. Álverið var tregt í taumi. Samkeppniseftirlitið telur að þarna hafi staðan verið orðin sú að Samskip gat sett upp það verð sem það vildi, öruggt um að Eimskip myndi aldrei bjóða betur. Á þessum tíma hafi stjórnendur Eimskip verið að reikna út hvernig þeir gætu sem best flutt það ál sem Samskip gæti ekki tekið á Reyðarfirði til Rotterdam. Það hafi þeir getað gert því þeir bjuggu yfir trúnaðarupplýsingum um breytingar á leiðarkerfi Samskipa.

Alcoa reyndi að óska eftir tilboði frá Eimskipi. Álverið gaf Samkeppniseftirlitinu þær skýringar að því hefði verið hafnað þar sem verðið hefði verið of hátt og Eimskip aðeins tilbúið að taka fjórðungs þess magns sem þurfti. Eftirlitið segir að við rannsókn málsins hafi stjórnendur Eimskips viðurkennt að félagið hefði átt bæði pláss í skipum sínum fyrir meira ál og búið að mikilli reynslu í slíkum flutningum. Þess vegna hefði það getað gert Alcoa samkeppnishæft tilboð og reynt að ná til sín viðskiptunum en aldrei ætlað sér það.

Samkeppniseftirlitið telur álverið hafa verið grunlaust um hvað var í gangi innan skipafélaganna. „Skýringin á því að stjórnendur Eimskip töldu raunhæft að leggja til grundvallar að hluti flutninga Samskipa fyrir Alcoa myndi færast til Eimskips er hið ólögmæta samráð sem fyrirtækið hefur viðurkennt að hafi verið fyrir hendi á þessum tíma,“ segir í úrskurðinum. Eftirlitið bætir því við að gögn frá þessum tíma sýni að Samskip hafi talið sig eiga tilkall til flutninganna fyrir Alcoa og Eimskipi verið það fulljóst.

Snilld og alsæla


Dagana 22. og 23. október er fundað á Reyðarfirði, annars vegar skipafélögin tvö með Alcoa, síðar bara Alcoa og Samskip. Samningar náðust ekki þann dag. Mánuði síðar gafst Alcoa upp. Rétt er að hafa í huga að á þessum tíma eru forsendur orðnar breyttar, 29. september hófst íslenska fjármálahrunið með falli Glitnis. Alcoa segir Samskip hafa borið við neyðarástandi vegna þess til að ná sínu fram.

Þann 24. nóvember var gerður viðauki við samninginn frá 2007. Þar hækkar verðið um 131%, úr 6,5 Bandaríkjadölum á tonn í 15. Það verð var ögn undir tilboði Eimskips. Um leið gekk Alcoa í að semja við Eimskip um að taka umfram magnið. Ljóst var orðið að breytingarnar á leiðakerfi Samskipa voru þannig að fyrirtækið flytti ekki það sem álverið þyrfti. Í úrskurðinum segir frá því að stjórnendur Alcoa Fjarðaáls hafi ekki verið ánægðir þegar fyrirtækið skildi eftir ál í Mjóeyrarhöfn en sigldi þaðan með jólasíld frá Fáskrúðsfirði, sem betra verð fékkst fyrir. Eimskip hóf í kjölfarið að sigla með umframmagnið til Rotterdam.

Talið er að Samskip hafi á árunum 2008-12 flutt árlega um 300.000 tonn af áli út fyrir Alcoa Fjarðaál en Eimskip um 13.000. Samkeppniseftirlitið segir stjórnendur Eimskips hafa talað um „tæra snilld“ og „alsælu“ þegar þeir lýstu ábatanum af viðskiptunum.

Útboð álversins kippir fótunum undan samráðinu


En sælan var ekki jafn mikið hjá stjórnendum álversins. Í samningnum frá nóvember 2008 var ákvæði um endurskoðun á sex mánaða fresti. Samkeppniseftirlitið segir þá hafa talið sig semja um tímabundna verðhækkun og bætir við að árin á eftir hafi Alcoa Fjarðaál ítrekað reynt að fá verðið lækkað en án árangurs.

Þetta ástand varð til þess að álverið ákvað haustið 2011 að bjóða út skipaflutningana. Samskip og Eimskip lögðu fram tilboð en samið var við fyrirtæki, Cargo W, sem þá var í raun lítið annað en hugmynd á blaði. Það tók við flutningunum árið 2013.

Rétt eins og útflutningurinn með álið virðist hafa verið ein af þungamiðjunum í samráði flutningafyrirtækjanna virðist þetta útboð hafa átt stóran þátt í að það leið undir lok. Samkeppniseftirlitið bendir á að þarna hafi mikið magn farið út úr siglingakerfum þeirra, einkum Samskipa. Á sama tíma hafi íslenskur efnahagur verið að rétta úr sér og flutningar almennt að batna.

Við brotthvarf Alcoa myndaðist pláss í skipunum sem þurfti að fylla. Þannig virðist ekkert samráð hafa verið haft þegar Samskip endurskipulögðu flutningakerfi sitt það ár og í framhaldinu byrjuðu þau aftur að keppast um stóra viðskiptavini, sem sumir færðu sig yfir. Meðal þess sem Samskip gerðu var að sigla í nýjar hafnir, einkum til að ná í sjávarafurðir, sem var grunnurinn að því að strandsiglingar hófust á ný. Eimskip breytti líka sinni áætlun. Eftirlitið telur ekkert samráð hafa verið haft við þessar breytingar.

Hve mikið var hægt að sjá hrunið fyrir?


Í tilkynningu sem Samskip sendu frá sér í kjölfar birtingu úrskurðarins hafnar fyrirtækið niðurstöðunni. Ályktanir um víðtækt og þaulskipulagt samráð eru sagðar með öllu tilhæfulausar og úr tengslum við gögn og staðreyndir. Félagið muni því ekki una úrskurðinum og leita allra löglegra leiða til að fá honum hnekkt.

Í athugasemdum Samskipa, sem fylgja úrskurðinum, er meðal annars borið við að breyta hafi þurft áætlunum til að bregðast við fjármálahruninu haustið 2008. Þótt það hafi ekki orðið fyrr en í byrjun október hafi óveðursskýin verið komin á loft töluvert fyrr. Samkeppniseftirlitið segir fyrirtækið engin gögn hafa lagt fram máli sínu til stuðnings um slíkan samdrátt og að fullyrðingarnar stangist á við við samtímagögn. Þá bendir það á að þótt innflutningur hafi minnkað við fjármálahrunið 2008 hafi útflutningur vaxið, aðallega vegna Alcoa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar