Aldrei staðið til að aflífa aliendurnar á Fáskrúðsfirði

Af hálfu sveitarfélagsins Fjarðabyggðar hefur aldrei staðið til að aliendur, sem haldnar eru á Fáskrúðsfirði, verði aflífaðar. Kröfur hafa hins vegar gerðar um úrbætur á aðbúnaði þeirra og er unnið að lausn málsins í samráði við eiganda fuglanna.

Morgunblaðið greindi frá því á laugardag að til stæði að aflífa endurnar, sem eru tæplega 30 talsins, í dag að kröfu sveitarfélagsins, ef ekki yrði búið til húsaskjól fyrir þær í vetur.

Fregnir af þessu vöktu urg meðal Fáskrúðsfirðinga sem mörgum þykir vænt um endurnar og hafa bæði ferðafólk og börn staðarins gert sér ferðir að andasvæðinu til að gefa þeim að éta. Fleiri fjölmiðlar hafa síðan fjalla um málið.

Í yfirlýsingu sem Fjarðabyggð sendi frá sér í morgun er umfjöllunin hörmuð og sagt að aldrei hafi verið gerð krafa um að fuglunum yrði lógað. Hins vegar hafi þess verið krafist að fuglarnir yrðu fjarlægðir því aðbúnaður þeirra uppfyllti ekki samþykktir Fjarðabyggðar um aðbúnað fiðurfés né reglur um velferð alifugla.

Sveitarfélagið vísar til reglna sem samþykktar voru þar í byrjun árs um fiðurfé í Fjarðabyggð utan skipulagðra landbúnaðarsvæða. Í þeim er meðal annars ákvæði um að á lóðum þar sem veitt er leyfi til að halda fiðurfénað sé meindýraheldur kofi sem rúmi þann fjölda fugla sem leyfi er fyrir. Í kringum kofann sé síðan gerði, hæfilega stórt fyrir útiveru fuglanna sem fullnægi náttúrulegum þörfum þeirra. Þá er lausaganga fiðurfés með öllu óheimil og er eigandinn að öllu leyti ábyrgur fyrir dýrum sínum.

Fjarðabyggð sér um eftirlit með að leyfisskilyrðum sé framfylgt í umboði Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Séu skilyrðum ekki framfylgt er í reglunum vísað til heimilda í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir um áminningar, eftirlit, sektir og vísun mála til lögreglu séu brot endurtekin eða sérlega gróf.

Hjá Fjarðabyggð fengust þær upplýsingar að þessa stundina vinni skipulags- og umhverfissvið sveitarfélagsins að lausn málsins í samráði við eiganda fuglanna. Engar endur verði aflífaðar í dag, enda hafi það aldrei staðið til.

Í yfirlýsingu Fjarðabyggðar frá í morgun segir enn fremur að rétt sé að aliendurnar hafi verið mörgum til mikillar gleði og góð fordæmi séu um aðbúnað alianda í sveitarfélaginu, til dæmis á Reyðarfirði og í Breiðdal. Þar hafi fuglarnir skjól og séu undir umsjá eigenda sinna, meðal annars fóðrum. Engin fyrirstaða sé af hálfu Fjarðabyggðar að slíkri aðstöðu verði komið upp á Fáskrúðsfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.