Áleitnar spurningar á íbúafundi vegna síðasta snjóflóðavarnargarðsins í Neskaupstað
Verktakafyrirtækið Héraðsverk hóf undirbúning að gerð fjórða og síðasta snjóflóðavarnargarðsins ofan Neskaupstaðar fyrir tæpum mánuði síðan en í gær var þó fyrst haldinn sérstakur kynningarfundur vegna verksins sem mun taka milli fimm og sex ár að ljúka.
Um sextíu íbúar og gestir sóttu fundinn þar sem bæði forsvarsmenn sveitarfélagsins Fjarðabyggðar auk aðila frá verktökunum, Veðurstofunni og Ríkiseignum kynntu þennan síðasta hluta snjóflóðavarna fyrir bæinn.
Sem kunnugt er var þessum síðasta hluta framkvæmdanna sérstaklega flýtt í kjölfar snjóflóðanna sem á bæinn féllu þarsíðasta vetur og voru gestir sem Austurfrétt ræddi við ánægðir með þau viðbrögð en stjórnvöld færðu sérstaklega til fjármagn til að það gæti orðið raunin.
Þessum síðasta varnargarði er ætlað að skýla byggðinni fyrir neðan Nes- og Bakkagil utarlega í bænum en fyrir þá sem ekki þekkja til eru til dæmis Verkmenntaskóli Austurlands og Umdæmissjúkrahús Austurlands þar beint fyrir neðan auk fjölda íbúðarhúsa. Lengd þessa þvergarðs skal vera 730 metrar og um 20 metra hár. Í viðbót við garðinn sjálfan skal setja niður tvær keiluraðir fyrir ofan garðinn sjálfan en ráð er fyrir gert að rúmlega 700 þúsund rúmmetra af efni þurfi til verksins.
Ýmsar spurningar
Gestir á fundinum voru ekki feimnir að spyrja spurninga sem að hluta til voru af svipuðum meiði og á íbúafundum vegna fyrri snjóflóðagarða. Margir höfðu áhyggjur af þeim miklu jarðvegssprengingum sem framundan eru og bentu nokkrir sérstaklega á að mörg húsanna fyrir neðan garðinn hafi á sínum tíma verið reist á súlum þar sem jarðvegur á svæðinu sé æði gljúpur og langt niður á fast. Allur titringur vegna sífelldra sprenginga geti því haft enn verri áhrif en annars.
Var þessu tengt sett út á þær áætlanir verktaka og sveitarfélagsins að láta duga að ljósmynda útveggi húsa í sprengiradíus frá framkvæmdum sem teljast vera um 250 talsins. Meira þyrfti til ef ganga ætti úr skugga um að íbúar sætu ekki uppi með alvarlegar skemmdir sem hugsanlega kæmu jafnvel ekki í ljós fyrr en löngu síðar. Ennfremur var bent á þá staðreynd að utanhússmyndataka gæti á engan hátt greint sprungur eða brot í veggjum þeirra húsa sem séu klædd sem mörg þeirra eru.
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og fundarstjóri, tók þær athugasemdir alvarlega og hyggst sveitarfélagið í samstarfi við verktaka skoða leiðir til að hús á svæðinu verði skoðuð betur og meira en nú er gert ráð fyrir.
Önnur athugasemd sem fram kom á fundinum varðaði þá staðreynd að fyrirhugaðu garður nær ekki að skýla allra byggð Neskaupstaðar. Þörf væri á því að mati sumra því snjóflóð hefðu sannarlega verið að falla að ystu byggð þó ekkert þeirra hefðu náð alla leið hingað til. Mat einn fundargesta það svo að bæta þyrfti 200 metrum við svo vel mætti við una.
Meðal annars á því svæði er deiliskipulögð ný íbúðabyggð en í máli Jóns Björns og Arons Leví Beck, skipulags- og umhverfisfulltrúa, kom fram að þegar hefði verið ákveðið að setja á ís að útdeila lóðum ofarlega á nýja svæðinu að svo stöddu.
Sprengt klukkan 10
Nokkrir íbúar fundarins vildu fá mun skýrari mynd af þeim sprengingum sem óumdeilanlega munu setja mark sitt á bæjarlífið næstu misserin. Verktaki gerir ráð fyrir að senda út hávær hljóðmerki nokkrum mínútum fyrir hverju sprengingu fyrir ofan bæinn en ýmsir vildu fremur að sprengingarnar væru tímasettar nákvæmlega og auglýstar sérstaklega. Þannig gætu íbúar betur undirbúið sig, börn sín eða jafnvel gæludýr undir hvern hvell og titring en með einungis nokkurra mínútna fyrirvara og það stundum oft á dag.
Í máli verkstjóra Héraðsverks á staðnum, Viðars Haukssonar, kom fram vilji til að leita betri leiða í þessu tilliti en það gæti þó ollið töfum á verkinu ef ávallt þyrfi að bíða tiltekins tíma með sprengingar. Munu bæjaryfirvöld og Héraðsverk eiga samtal vegna þessa á næstunni.
Eðli máls samkvæmt höfðu íbúar margvíslegar spurningar og athugasemdir við þennan lokahnykk á snjóflóðavörnum í Neskaupstað á fundinum í gær. Mynd AE