Allir pakkar eiga að komast til skila fyrir jól

Miklar annir voru fyrri hluta vikunnar á austfirskum pósthúsum. Óveðrið í síðustu viku hafði mikil áhrif á póstdreifingu og nú vofir yfir ný lægð. Allir pakkar sem berast á pósthús í dag eiga þó að komast til skila fyrir jól.

„Staðan er góð. Það hefur verið líflegt og gott á öllum stöðum hér eystra, þótt það sé búið að vera minna að gera í dag en verið hefur,“ segir Árni Kristinsson, stöðvarstjóri Íslandspósts á Egilsstöðum.

Síðasti öruggi skiladagur bréfa fyrir jól var í gær og síðasti öruggi skiladagur pakka í dag. Bréf eru borin út á tveggja daga fresti en bögglar eru keyrðir út eða afhentir alla daga sem pósthús eru opin. Öll pósthús landsins eru opin 10-12 á aðfangadag, auk þess sem þau stærstu, meðal annars á Egilsstöðum, eru opin á laugardag.

Tveir dagar án pósts

Óveðrið sem gekk yfir landið í síðustu viku setti samgöngur úr skorðum og eru starfsmenn Íslandspósts enn að kljást við afleiðingar veðursins.

„Við fengum engan póst frá þriðjudegi fram á föstudag. Hér eystra var bíll sem kom til okkar á þriðjudegi og komst ekki í burtu aftur fyrr en í hádeginu. Það tókst síðan að hreinsa allt upp á föstudag, það komu tveir bílar til okkar þá um morguninn.“

Þá flýtir snjórinn sem Austfirðingar hafa fengið þessa vikuna ekki fyrir. „Bréfberarnir eru lengur að í snjónum og fólk er misduglegt að hreinsa snjóinn frá húsum sínum.“

Ný lægð á leiðinni

Óveðursvandræði póstsins eru ekki þar með úr sögunni því gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austurland, Norðurland og Suðurland fyrir kvöldið og nóttina. Þegar er búið að loka Hringveginum í Öræfum út af roki. „Þetta lítur ekki vel út akkúrat núna. Mér sýnist útlit fyrir að ferðin suður í kvöld verði slegin af,“ sagði Árni þegar Austurfrétt ræddi við hann um klukkan þrjú í dag.

Vonast er þó til að veðrið gangi að mestu yfir í nótt og það þýðir að þeir pakkar sem póstlagðir eru í dag eiga að komast sína leið fyrir jól. „Við fáum síðasta flutningabílinn austur að morgni Þorláksmessu og pósthúsinu eru opin að morgni aðfangadags.“

Líkt og hjá bréfberum í þéttbýli keyra landpóstar í dreifbýli um sín svæði annan hvern dag. Það þýðir að á sumum svæðum er síðasta skipulagða ferð á morgun, það er þeir sem fá póst á morgun fá ekki póst aftur fyrir jól. Árni segir að ef mikil röskum verði á samgöngum í dag og morgun verði skoðað að þeir fari aðra ferð á Þorláksmessu. Hann hvetur því íbúa í dreifbýli til að koma við á pósthúsum eigi það ferð í þéttbýlið fyrir jól. Endanleg ákvörðun um hvort landpóstarnir fari aukaferðir verður tekin eftir helgi.

Meira af pökkum, minna af kortum

Þrátt fyrir óveðrið hefur mánuðurinn gengið ágætlega hjá póstinum eystra. „Þetta hefur verið mjög góður mánuður en vitaskuld eru starfsmennirnir ekki jafn hamingjusamir þegar svona tafir verða á. Dagarnir verða erfiðari því við getum ekki þjónustað viðskiptavini okkar eins og við vildum.

Aukningin í mánuðinum hefur verið jöfn og þétt. Það var mjög mikið að gera síðasta föstudag, mánudag og þriðjudag en gærdagurinn í dag hafa verið rólegri. Ég held að þannig hafi þetta verið á öllu svæðinu. Samanborið við fyrri ár þá finnst okkur vera meira af pökkum en minna af bréfum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.