Alvarlegt að ekki séu læknar með fasta viðveru allt árið
Bæjaryfirvöld á Seyðisfirði telja alvarlega stöðu í heilbrigðisþjónustu á staðnum. Forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði segir mönnun lækna á staðnum á sumrin ekki í takt við þörfina. Víða er erfitt að manna læknastöður á landsbyggðinni.„Okkur hefur fundist fyrirkomulagið hér losaralegt á sumrin. Þegar fasti læknirinn hér fer í sumarfrí koma afleysingalæknar eða jafnvel tímabil þar sem ekki fást læknar. Það teljum við ekki ásættanlegt. Við erum hér oft með fullan bæ af fólki á sumrin en mönnunin er ekki í takt við þörfina,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði í nýjasta tölublaði Austurgluggans.
Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur löngum haft áhyggjur af heilbrigðisþjónustunni í bænum. Þjónustustigið var löngum hátt því til staðar voru tveir læknar sem er nokkuð ríflegt fyrir tæplega 700 manna byggðarlag. Hluti skýringarinnar var heilabilunardeildin sem rekin er á sjúkrahúsinu þar.
Fjögur ár eru síðan annar þeirra flutti í burtu og ekki kom annar í staðinn. Misjafnlega hefur gengið að fylla í skarðið þegar eini læknir staðarins fer í frí. Hildur segir Seyðfirðinga finna fyrir verulegri þjónustuskerðingu síðan læknunum fækkaði, sérstaklega á sumrin.
Sameiginleg vakt með Héraði
Síðan þessi breyting varð er sameiginleg vakt lækna utan dagvinnutíma á Seyðisfirði og Héraði en læknirinn er staðsettur á Egilsstöðum. Þá eru valdar vikur á sumrin þar sem vakt er á Seyðisfirði.
„Þess utan er leitast við að bjóða lækni á Seyðisfirði í því starfshlutfalli sem okkur er ætlað miðað við fjárveitingar,“ segir Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA).
Í samtali við Austurgluggann sagðist Hildur einkum óttast stöðuna ef núverandi læknir flytti af staðnum. Sá möguleiki hafi verði ræddur við stjórnendur HSA á fundi nýverið og þar fengist þau svör að erfitt gæti reynst að finna arftaka.
Erfitt að ráða lækna á landsbyggðina
Pétur bendir á að erfitt sé að fá lækna til starfa á landsbyggðinni, ekki bara Seyðisfirði. HSA hafi lent í nokkrum vandræðum með að manna stöður í sumar. „Við viljum að sjálfsögðu halda uppi læknisþjónustu á Seyðisfirði eins og annars staðar en gerum okkur grein fyrir að það er erfitt að fá fólk til fastra starfa úti á landi,“ segir Pétur. Gleðitíðindi séu úr Fjarðabyggð þar sem ráðinn hafi verið nýr yfirlæknir sem komi til starfa á morgun. Hann er fyrsti sérfræðingurinn í heimilislækningum sem ráðinn er til HSA í þó nokkur ár þrátt fyrir auglýsingar.
Hildur segir nýútskrifaða lækna vinna í teymum í námi sínu og vilji vinna þannig. Þeir sækist því ekki eftir störfum í einmenningsumdæmum. Heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þurfi því að skoða vel.
Vilja fá ráðherra austur
Bæjarstjórn Seyðisfjarðar samþykkti á síðasta fundi sínum í síðustu viku áskorun til stjórnenda HSA og annarra stjórnvalda um að tryggja læknisþjónustu á staðnum árið um kring. Þar til Fjarðarheiðargöng verði að veruleika sé óásættanlegt að ekki starfi þar læknar með fasta viðveru allt árið.
Eins skipti máli að tryggja aðra grunnheilbrigðisþjónustu og starfsemi til frambúðar. Á fundinum var samþykkt að bjóða heilbrigðisráðherra austur til fundar sem fyrst. Hildur segir beðið eftir svörum ráðherra við boðinu.