Andlát: Stefán Már Guðmundsson
Stefán Már Guðmundsson, framhaldsskólakennari og formaður Íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað lést í gær, 55 ára að aldri.
Stefán Már fæddist í Reykjavík 18. júlí árið 1961. Hann lærði smíði og starfaði í greininni áður en hann flutti norður á Þórshöfn og tók til starfa sem íþróttakennari.
Hann flutti aftur suður áður en hann fór í íþróttakennaraháskólann á Laugarvatni. Að loknu námi starfaði hann sem kennari í Rimaskóla og æskulýðsfulltrúi á Akranesi áður en hann flutti aftur norður á Langanes og gerðist skólastjóri Svalbarðsskóla í Þistilfirði.
Þaðan flutti Stefán Már austur á Reyðarfjörð og réði sig sem aðstoðarskólastjóra áður en hann flutti sig yfir á Norðfjörð og kenndi íþróttir og smíðar við Verkmenntaskólann.
Stefán Már var athafnasamur í íþrótta- og æskulýðsmálum. Hann ólst upp í íþróttafélaginu Víkingi og var virkur í skátastarfi. Hann var framkvæmdastjóri Ungmennasambands Norður-Þingeyinga, meðal stofnenda Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi, í stjórn Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar og formaður Þróttar undanfarin ár.
Hann starfaði einnig í stjórnmálum, var í þingframboði fyrir Bjarta framtíð fyrir síðustu tvennar kosningar og í Fjarðabyggð var starfaði Stefán Már með Fjarðalistanum og var um tíma bæjarfulltrúi. Á yfirstandandi kjörtímabili var hann varamaður í íþrótta- og tómstundanefnd.
Eftirlifandi eiginkona Stefáns Más er Vilborg Stefánsdóttir.