Andlát: Sigurður Óskar Pálsson
Sigurður Óskar Pálsson, fyrrverandi kennari og skólastjóri á Borgarfirði eystri og Eiðum andaðist á Dvalarheimilinu Hlíð þann 26. apríl.
Sigurður Óskar fæddist í Breiðuvík við Borgarfjörð eystra 27.desember 1930. Hann var yngsta barn hjónanna Páls Sveinssonar og Þuríðar Gunnarsdóttur og jafnframt síðasta barnið sem fæddist í Breiðuvík.
Systkini hans sem nú eru látin voru: Sigrún sem lengi var kennari og skólastjóri á Borgarfirði,Daníel bóndi í Geitavík og Þorbjörg húsfreyja að Gilsárvelli. Árið 1938 fluttu foreldrar hans með fjölskylduna til Borgarfjarðar og settust að í Geitavík I þar sem þau hjón bjuggu til dauðadags.
Sigurður kvæntist 12. febrúar 1956 eftirlifandi eiginkonu sinni Jónbjörgu Sesselju Eyjólfsdóttur frá Bjargi á Borgarfirði. Foreldrar hennar voru Eyjólfur Hannesson hreppstjóri og Anna Guðbjörg Helgadóttir húsfreyja.
Sigurður og Jónbjörg reistu sér nýbýlið Skriðuból í landi Geitavíkur og fluttu þau þangað árið 1959, en fyrstu búskápar ár sín áttu þau í Geitavík 1, þar sem elstu börn þeirra fæddust.
Börn Sigurðar og Jónbjargar eru: Þuríður f. 1953. Leikskólakennari á Dalvík, maki Víkingur Daníelsson Þau eiga þrjú börn og sex barnabörn. Anna f. 1954 starfar við Kværndrupkirkju á Fjóni í Danmörku, maki Guðmundur Eiríksson. Þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn. Sigríður f. 1957. Þjónustufulltrúi í þjónustuveri Landsbankans,maki Friðjón Ingi Jóhannsson. Eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn. Páll f. 1958. Málmiðnaðarmaður í Reykjavík Maki Sigrún Bjarnadóttir. Fyrri maki Guðrún M. Þorbergsdóttir lést 1991. Þau eignuðust tvö börn og eiga eitt barnabarn. Sigþrúður f. 1959. Hún er kennari á Fljótsdalshéraði og rekur fjárbúskap ásamt sambýlismanni sínum Þórarni Ragnarssyni á ættjörð hans, Brennistöðum. Þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn. Hannes f. 1960. Sölumaður á Akureyri. Maki Hildur Stefánsdóttir. Fyrri kona Hannesar var Guðrún Hulda Heimisdóttir og eiga þau 4 börn. Hannes á 7 barnabörn. Sesselja f. 1962. Leikskólaráðgjafi hjá Akureyrarbæ. Maki Davíð Jens Hallgrímsson Þau eiga tvö börn og eitt barnabarn.
Sigurður nam við Alþýðuskólann á Eiðum á sínum yngri árum og fór síðan í Kennaraskólann og lauk þaðan námi 1954. Sama haust gerðist hann kennari við Barnaskólann á Borgarfirði og frá árinu 1966 sinnti hann þar stöðu skólastjóra. Haustið 1971 flutti fjölskyldan í Eiða, þar sem Sigurður tók við stöðu skólastjóra Barnaskólans. Því starfi gegndi hann til ársins 1984, en þá fluttu þau hjón í Egilsstaði þar sem Sigurður tók við stöðu forstöðumanns Héraðsskjalasafns Austfirðinga og þeirri stöðu sinnti hann út starfsævina til ársins 1996. Árið 2000 fluttu þau svo til Akureyrar og keyptu í félagi við dóttur sína og tengdason húsið að Gilsbakkavegi 13. Þar bjuggu þau fram í janúar 2011 er þau fluttu í raðhús við Dvalarheimilið Hlíð. Á vormánuðum 2012 fluttu þau hjónin inn á Dvalarheimilið.
Kennsla, velferð og uppfræðsla barna var Sigurði ætíð hugleikin og kennarastarfinu sinnti hann af alúð og næmni. Hann vann árum saman óeigingjarnt starf í þágu ungmenna og æskulýðs. Hann var hagur á íslenska tungu og íslenskan var hans hjartans mál. Ljóðabók hans Austan um land sýnir glöggt hvílíkur orðsins listamaður hann var. Eftir hann liggja líka ýmsar greinar og sögur, sem birst hafa í tímaritum, bókum og héraðsblöðum í gegnum tíðina.
Leiklist var honum í blóð borin og fyrr á árum fór hann oft með minni og stærri hlutverk í sýningum á sviði, bæði á Borgarfirði og síðar á Egilsstöðum.
Útför Sigurðar Óskars fer fram í kyrrþey að hans ósk, og jarðsett verður á Borgarfirði eystra.
Þeim sem vilja minnast hans er bent á að láta SOS- barnaþorpin njóta þess. Reikn. 0130-26-9049 kt. 500289-2529