Annar hvellur í veðrinu á leiðinni austur

Norðvestan stormur með hríð eða snjókomu er á leið austur á land og taka gular viðvaranir gildi á öllu Austurlandi síðdegis á morgun.

Samkvæmt spám Veðurstofu Íslands verður þessi hvellur heldur verri en sá sem gekk yfir fjórðunginn í fyrrinótt. Vindhraði að 28 metrum á sekúndu og hviður við fjöll allt upp í 35 metra per sekúndu eins og raunin var þá en munurinn felst í að þessum storminum fylgir snjókoma og lélegt skyggni. Segir skorinort í viðvörun Veðurstofunnar að ekkert verði ferðaveður.

Eins og staðan er nú gera veðurfræðingar ráð fyrir að vind fari að hreyfast að ráði milli klukkan 17 og 18 á morgun og veðurofsinn geysi linnulaust fram til hádegis á laugardag. Skýrt er varað við því að fólk sé á ferðinni yfir þennan tíma enda taldar afar sterkar líkur á samgöngutruflunum.

Það er svo á sunnudaginn kemur sem Veðurstofan gerir ráð fyrir að hlýindakaflanum sem ríkt hefur að undanförnu ljúki og frosti og snjókomu spáð þann dag og næstu daga á eftir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar