Appelsínugul viðvörun fyrir Austurland og Austfirði

Veðurstofa Íslands hefur gefið út nýja veðurspá og um leið hækkað viðvörunarstig í appelsínugult fyrir morgundaginn.

Viðvörunin gengur í gildi fyrir Austurland að Glettingi klukkan sex í fyrramálið og lýkur klukkan átta annað kvöld. Á Austfjörðum gildir hún frá átta að morgni til tíu að kvöldi.

Spáð er stormi eða roki úr norðri, 20-28 m/s með snjókomu og skafrenningi en slyddu við sjávarsíðuna. Vind tekur að lægja eftir hádegi en áfram verður hríð fram á kvöld.

Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjón og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð og ekkert ferðaverður er á meðan viðvörunin er í gildi. Íbúar eru minntir á að fylgjast vel með veðurspám.

Vegagerðin hefur ekki enn gefið út neinar áætlanir um lokanir á vegum. Hins vegar er búist við lokunum á mikilvægum leiðum utan fjórðungs, svo sem um Mývatnsöræfi og yfir Skeiðarársand fram á fimmtudagsmorgunn.

Ofanflóðadeild Veðurstofunnar telur nokkra hættu á snjóflóðum á Austfjörðum, sem er hættustig 2 af 5. Á svæðinu er skafsnjór ofaná harðpökkuðum gömlum snjó.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar