Umfangsmikil tækjavöktun á Seyðisfirði en ekkert kemur í stað sjónræns mats

Vel yfir sjötíu mismunandi mælitæki eru notuð í hlíðum Seyðisfjarðar til að meta og vakta í rauntíma allar jarðhreyfingar sem hugsanlega gætu kallað á óvissustig. Þrátt fyrir alla þá tækni kemur ekkert í staðinn fyrir sjónrænt mat.

Það ekkert áhlaupaverk að fylgjast grannt með jarðhreyfingum á borð við þeim sem orðið hafa í hlíðum Seyðisfjarðar undanfarið og í kjölfarið samtvinna gögnin til að reyna að meta hvort eða hvenær aðstæður verða hættulegar.

Yfir þetta fór Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur á sviði skriðufalla og hættumats hjá Veðurstofu Íslands, gaumgæfilega á íbúafundi í bænum í vikunni og verkið líklega flóknara en margur gerir sér grein fyrir. Hann sagði þó ekkert eitt tæki nógu fullkomið til að styðjast við og því þyrfti mörg mismunandi tæki til að fá sem skýrasta mynd.

„Nú er ég búinn að vera hér [á Seyðisfirði] síðustu mánuði að setja upp spegla og alls kyns mælitæki eins og gps-stöðvum, aflögunarmælum og alls kyns mælitækjum hér í hlíðina. Alls eru í heildina um 72 mismunandi mælipunktar í hlíðinni fyrir ofan bæinn til vöktunar.“

Ekki aðeins er fjöldi mælitækja mikill heldur og hefur verið sett upp ný veðurstöð á staðnum í þokkabót ofarlega í fjallið. Það helgast af því að úrkoma er talin miklu meiri ofantil en neðar við bæinn. Eldri veðurstöð er líka nýtt sem og veðurstöð á Gagnheiði auk vatnshæðar- og aflögunarmæla í nokkrum borholum sem boraðar hafa verið ofarlega í hlíðunum.

„Við erum með einar sex vefmyndavélar og hver um sig tekur mynd á 30 mínútna fresti svo við fáum enn betri yfirsýn en ella. Þá er það alstöðin og einir 42 speglar sem eru komnir í Neðri-Botna ásamt fjórum viðmiðunarspeglum sem eru ofar í hlíðinni. Við komum líka fyrir speglum í Þófann og sömuleiðis settum við spegla í sífrerahlutann við Strandatind.“

Síðast en ekki síst hefur Veðurstofan sett upp öflugan radar á staðnum. Þetta í raun svokallaða bylgjuvíxlmælitæki sem tekur mælingu á þriggja klukkustunda fresti og greinir mun milli mynda ef hreyfing hefur orðið. Radar hefur það umfram alstöð að alstöðin virkar ekki mjög vel í mikilli rigningu en slíkt hefur ekki áhrif á radarinn.

Jón ítrekaði þó að þrátt fyrir öll tækin og tólin kæmi ekkert í stað fyrir sjónrænt mat eftirlitsmanna.

Mynd/Skjáskot Veðurstofa Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.