Ásatrúarfólk í Austurlandsgoðorði ætlar að byggja hof á Héraði
Hugur er í ásatrúarfólki í Austurlandsgoðorði sem er byrjað að safna í sjóð til að geta byggt sér félagsheimili, eða hof. Freysgoði segir samstöðu meðal félaga um staðsetninguna lykilforsendu.Á fundi þingmanna goðorðsins um miðjan ágúst var væntanlegur bankareikningur til söfnunar staðfestur. Hugmyndirnar voru áfram ræddar á félagsfundi á Fljótsdalshéraði síðasta laugardag en þar stendur til að hafa hofið.
„Ásatrúarsöfnuðurinn á Austurlandi, frá og með Vopnafirði til Djúpavogs, hefur verið öflugur um árabil og það eru starfandi hópar í flestum þéttbýlisstöðum. Við höfum verið að þróa félags- og grasrótarstarf. Við erum með trúnaðarmenn á hverjum stað sem sinna hagsmunum félagsfólks.
Við höfum ekki þrýst sérstaklega á um bygginguna en við heyrum að það virðist samstaða um að byggja félagsheimili á Fljótsdalshéraði. Þess vegna erum við að vinna þessar hugmyndir áfram,“ segir Baldur Pálsson, goði í Austurlandsgoðorði sem ber titilinn Freysgoði.
Aukinn áhugi á ásatrú
Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 5.435 manns skráðir í Ásatrúarfélagið. Það gerir það að fimmta fjölmennasta trúfélagi landsins, Þjóðkirkjan er langstærst en síðan koma Kaþólska kirkjan og Fríkirkjurnar tvær í Reykjavík og Hafnarfirði. Siðmennt er síðan skammt undan.
Fjölgunin hefur nánast verið í veldisvexti. Tölur Hagstofunnar ná aftur til ársins 1998 þegar 280 manns voru í Ásatrúarfélaginu. Frá árinu 2020 hafa 1000 félagar bæst í hópinn, sé horft tíu ár aftur í tímann hefur fjöldinn meira en tvöfaldast og tífaldast á 20 árum. Tölur Hagstofunnar eru ekki greinanlegar eftir landssvæðum fyrir einstök trúfélög.
Þetta þýðir þó að ákveðin þörf er farin að myndast fyrir aðstöðu. „Við erum með allar okkar athafnir utanhúss í dag og unglingafræðslan fer fram heima hjá goðanum. Við teljum að hof, þar sem hægt væri að hafa útfarir og annað félagsstarf, myndi hafa mikil áhrif,“ segir Baldur.
Tillaga að teikningu vilyrði fyrir lóð
Aðalbækistöðvar Ásatrúarfélagsins eru í Reykjavík. Þar hefur verið unnið að uppbyggingu aðstöðu í Öskjuhlíð í hartnær 20 ár. Skrifstofuhlutinn er tilbúinn en félagsheimilið sjálft er eftir. Í Skagafirði er goði sem á sitt eigið hof. „Það er byggt úr torfi, grjóti og sterkum viðum,“ segir Baldur.
Áform Austfirðinga eru enn skammt á veg komin og segir Baldur að félagar séu þolinmóðir. „Við höfum unnið undirbúningsvinnu undanfarna mánuði. Það er komin tillaga að teikningu að einföldu húsi sem við kynntum á laugardag en það er eftir að fjalla betur um hana. Við höfum vilyrði fyrir góðri staðsetningu en hún er ekki trygg og á líka eftir að ræðast betur. Það liggur ekkert á og við gefum okkur góðan tíma. Við förum ekkert af stað fyrr en við eigum fyrir þessu.“
En fyrstu skrefin hafa verið stigin. „Það eru allir fullir áhuga á að halda þessu áfram. Ég varð eiginlega hálf hissa þegar ég fann hvað fólkið var tilbúið í verkefnið og sammála um staðsetninguna.“