Ásdís Helga verkefnastjóri samfélagsverkefnis í Fljótsdal
Ásdís Helga Bjarnadóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri samfélagsverkefnisins Fagrar framtíðar í Fljótsdal.Ásdís Helga er fædd árið 1969 og ólst upp á Hvanneyri. Hún hefur fjölbreytta náms- og starfsreynslu.
Ásdís Helga nam meðal annars við Hússtjórnarskólann á Hallormsstað en hún lauk síðan B.Sc. námi í búsvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands og útskrifaðist frá Norges Landbrugshögskole með Cand.Agric.- gráðu árið 1997. Auk þess sem hún lauk leiðsögumannanámi við Ferðamálaskóla Íslands 2011, stundaði hún nám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst og lauk MA-gráðu frá Háskólanum á Hólum á þessu ári í ferðamálafræðum með áherslu á viðburðastjórnun.
Ásdís Helga hefur undanfarin ár starfað sem sérfræðingur innan veiði- og verndarteymis hjá Umhverfisstofnun með aðsetur á Egilsstöðum. Áður hefur hún meðal annars kennt við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og starfað fyrir Matvælastofnun á Austurlandi.
Ásdís Helga hefur ennfremur víðtæka reynslu úr félagsstörfum en hún er forseti Rótarýklúbbs Héraðsbúa og var nýverið tilnefnd sem umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi 2021-2022. Áður var hún meðal annars varaformaður Ungmennafélags Íslands og Sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar auk þess að sitja um tíma í stjórn Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands.
Ennfremur hefur Ásdís Helga starfað í nefndum sveitarfélaga innan menningar- og æskulýðsmála. Þá hefur hún tekið virkan þátt í störfum kvennasamtaka, norrænu samstarfi á sviði æskulýðs- og landbúnaðarmála sem og á sviði íþrótta; auk þess æft, keppt og þjálfað ýmsar íþróttagreinar.
Ráðið er í starfið í gegnum Austurbrú. Í fréttatilkynningu stofnunarinnar kemur fram að Ásdís Helga muni hefja hefja störf í október og hafa aðsetur á Egilsstöðum með reglulegri viðveru í Fljótsdal.