Ástand Lagarfljótsbrúarinnar heldur verra en talið var

Ráðist verður í umfangsmiklar viðgerðir á brúnni yfir Lagarfljót milli Egilsstaða og Fellabæjar á næstu mánuðum. Hámarkshraði á brúnni var lækkaður niður í 30 km/klst. í sumar vegna skemmda.

„Við skoðum kom í ljós að efra slitdekkið er að gefa sig og það er kominn vísir að holu þar sem komið er inn á brúna Fellamegin. Hámarkshraðinn var lækkaður til að dempa það högg sem kemur á brúna þegar stórir bílar koma inn á hana,“ segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi.

Hámarkshraðinn var lækkaður í júlí en Sveinn segir þurrt veður fyrri hluta sumars hafa átt sinn þátt í að timburverk brúarinnar varð lausara í sér.

Þá hafa bútar losnað upp úr járnmottum í brúargólfinu. Dæmi eru um að bútarnir hafi sprengt dekk bíla. Sveinn segir að reynt hafi verið að bæta það tjón sem bíleigendur hafi orðið fyrir vegna þessa.

Á næstunni er fyrirhugað að ráðast í umfangsmiklar viðgerðir á brúnni. Skipt verður um bæði efra og neðra slitdekk brúarinnar auk þess sem motturnar verða teknar upp og metið hvort annað efni sé hentugra í brúargólfið, en minnugir muna eftir að áður var það úr harðviði. Þá verður næsta vor gert við steypuna í stöplum brúarinnar.

Sveinn segir að framvinda viðgerðanna muni ráðast af veðri en dregist gæti fram til næsta vors að klára þær allar. Á meðan mun þurfa að loka annarri akrein brúarinnar að hluta eða í heild og verðum umferð stýrt með ljósum.

„Það hefur dregist út af öðrum verkefnum að fara í endurbætur á brúnni en þegar ástandið er orðið svona er ekki annað hægt. Ástandið er heldur verra en menn áttu von á. Brúin fær hins vegar ágæta yfirhalningu við þetta.“

Samkvæmt gildandi samgönguáætlun er ný Lagarfljótsbrú áætluð á þriðja tímabili, 2029-2033.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.