Átak gegn ölvunarakstri í desember
Lögreglan á Austurlandi mun í desember leggja sérstaka áherslu á eftirlit með ölvunar- og fíkniefnaakstri. Að undanförnu hefur verið átak í gangi vegna vanbúinna ökutækja.Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að undanfarnar vikur hafi 127 ökumenn verði stöðvaðir fyrir að vera með ljósabúnað í ólagi. Þá voru nokkrir stöðvaðir fyrir að skafa ekki nógu vel af framrúðum.
Í yfirlitinu kemur fram að 23 hafi verið kærðir fyrir að keyra of hratt og tveir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og vímuefna. Í desember hyggst lögreglan leggja sérstaka áherslu á eftirlit með akstri undir áhrifum vímuefna og mega ökumenn búast við að vera stöðvaðir ef svo ber undir.
Þá voru fimm kærðir fyrir stöðvunarskyldubrot og tveir fyrir að leggja í stæði fatlaðra.
Lögreglan hvetur jafnframt foreldra til setja endurskinsmerki á útifatnað barna sinna en það hefur verið nokkuð áberandi á sumum stöðum að börn eru ferðinni án þess að vera með endurskinsmerki og sjást þar af leiðandi illa í umferðinni.