Átök verða um forgangsröðun samgönguframkvæmda
Fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis býst við hörðum átökum, þótt þau muni ekki endilega fara hátt, um forgangsröðun þegar endurskoðuð samgönguáætlun verður lögð fyrir á þingi í haust. Hann segir þingmenn kjördæmisins samstíga í stuðningi sínum við jarðgöng til Seyðisfjarðar.„Það er enginn bilbugur á okkur. Ég hef verið mikill talsmaður þess að við kæmum á þessari tengingu. Við þingmenn kjördæmisins stöndum saman um það.
Hins vegar eru skiptar skoðanir bæði í okkar þingflokki og annarra um forgangsröðun og við þurfum að taka þá umræðu. Í haust verða slagsmál, ekki opinber, á þingi um forgangsröðun samgönguverkefna. Það eru fleiri verkefni en á Austurlandi sem þarf að reyna að koma inn á framkvæmdaáætlun.“
Þetta sagði Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á opnum fundi sem flokkurinn stóð fyrir á Egilsstöðum nýverið. Þingmenn voru þar spurðir út í afstöðu þeirra til hugmynda um jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi, hringtengingu þar sem byrjað verði á að bora undir Fjarðarheiði.
Vongóður um skosku leiðina
Njáll Trausti Friðbertsson, annar þingmaður flokksins í kjördæminu, sagði verkefnið að fjármagna göngin og bætti við að hann ætti von á að inn á áætluninni núna yrði einnig að finna nýjan veg yfir Öxi, fjármagnaðan að hluta með veggjöldum, sem væri eitt af áhersluatriðum samgönguráðherra.
Hann var einnig spurður út í niðurgreiðslu flugfargjalda. Hann sagði jákvæðni vera í ríkinu en helstu vafamálin væru minnkandi tekjur ríkisins vegna loðnubrests og gjaldþrots flugfélagsins Wow. „Það styttist í fjárlög, ég ætla rétt að vona að þetta verði inni þar.“
Skoða leiðir um jarðakaup
Töluverðar umræður voru einnig á fundinum um jarðakaup erlendra ríkisborga á Íslandi. Kristján Þór benti á að nokkrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, undir forustu forsætisráðherra, væru að skoða leiðir en ekki yrði ljóst hvað yrði gert. Allir hefðu varan á gegn slíkum kaupum, en vandmeðfarið væri að takmarka hvernig fólk ráðstafaði eignum sínum. Hömlur á jarðasölu yrðu til þess að rýra verðgildi þeirra. Ekki gangi þó að land sé keypt hömlulaust þannig að þjóðarhag sé haggað.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður úr Reykjavík, varaði við hugmyndum um ábúðarskyldu og fullyrti að farið væri í kringum hana í þeim löndum þar sem hún væri til staðar. Hún lýsti einnig þeirri skoðun sinni að rétt væri að skoða að breyta laxveiðilögum til að auka vernd minnihluta í veiðifélögum.
Stjórn með VG kallar á meiri málamiðlanir
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra ræddi stöðuna í stjórnmálunum og ríkisstjórnarsamstarfið. Ný staða fyrir flokkinn væri að vera í stjórn með Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, auk þess sem þriggja flokka stjórn hefði aldrei haldið út heilt kjörtímabil hérlendis. Það kallaði oft á meiri og öðruvísi málamiðlanir en áður. Auðveldara væri að vera afgerandi í stjórnarandstöðu, að vera í stjórn fylgdi annars konar ábyrgð, en með fyrsta þingmann í öllum kjördæmum hefðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins talið sig skulda kjósendum sínum að vera í ríkisstjórn.
Hún lýsti ánægju með árangur í efnahagsmálum og auknar ráðstöfunartekjum heimilanna. Ýmsar áskoranir væru þó framundan, til dæmis hefðu útgjöld til almannatrygginga aukist um 70 milljarða á fáum árum. Þörf væri á nýsköpun í helstu kerfi ríkisins, annars yrði ekki hægt að reka þau. „Við gerum ekki allt sem við viljum gera nema horfa á hlutina öðruvísi.“
Þórdís, sem jafnframt er varaformaður flokksins, var spurð út fylgi hans, sem er sögulega slakt og hvort flokkurinn þyrfti ekki að finna nýjar leiðir til að ná til mögulegs fylgisfólks. Hún svaraði með að benda á að umhverfið hefði breyst, flokkurinn þyrfti nú að fóta sig í samkeppni átta þingflokka. Endalaus vinna væri fólgin í að safna fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki frekar en aðrir. Sumar ytri aðstæður væru einnig erfiðar, Þórdís kvaðst efast um að margir aðrir formenn flokksins hefðu lent í að tveir forverar hans gagnrýndu hann hvor úr sinni áttinni.