Austfar: Fjarðarheiði er dragbítur á starfsemina

seydisfjordur.jpg

Takmarka hefur þurft fólksflutninga í vetrarsiglingum farþegaferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar vegna þess farartálma sem Fjarðarheiði er. Vegurinn þar er dragbítur á starfsemina. 

 

„Smyril Line hefur orðið að takmarka fólksflutninga í vetrarsiglingum vegna þeirra vandamála sem fylgja m.a. samgöngum um Fjarðarheiði og hafa verulega hamlandi áhrif á starfsemina,“ segir í umsögn Austfars ehf. um þingályktunartillögu sem þingmenn Norðausturkjördæmis lögðu fram á yfirstandandi þingi þar sem mælst var til þess að hafinn yrði fullnaðar undirbúningur að gerð gangna undir heiðna. Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi verði lokið í tæka tíð til að hægt verði að hefja framkvæmdir í beinu framhaldi af Norðfjarðargöngum.

„Það er kunnara en frá þarf að segja að samgöngur um Fjarðarheiði hafa reynst verulegur dragbítur á starfsemina og oft skapast hættuástand fyrir ferðamenn og þá sem sjá um innanlandsfragt fyrir skipið.“

Heilsárssiglingar Norrænu hófust árið 2004 og fjölgaði farartækjum og fólki með ferjunni jafnt og þétt fram til ársins 2010. Farartækin urðu þá tæplega 11.000 og farþegarnir ríflega 35.000.

Í umsögninni, sem undirrituð er af Jóhanni Jónssyni, segir að forsvarsmenn Austfars hafi ítrekað bent á að varanlegra úrbóta, jarðgangna, sé þörf. „Fjarðarheiði er ekki í anda nútíma samgangana eins og almenningur og flutningafyrirtæki þarfnast. Hægt væri að sætta sig við veginn eins og hann er við góðar aðstæður að sumarlagi, en að bjóða vegfarendum upp á samgöngur eins og þær eru að vetrarlagi er algjörlega óásættanlegt.“

Fleiri taka undir álit Austfars. Í umsögn Þróunarfélags Austurlands segir að göng undir heiðina myndu gera svæðið að öflugra atvinnusvæði. Ferðaþjónustan, vöruflutningar og Norræna eru þar sérstaklega nefnd.

Þá bendir Heilbrigðisstofnun Austurlands á að „fjallvegir eins og Fjarðarheiði skerði öryggi þjónustunnar, skapi hættu fyrir veitendur og þiggjendur hennar.“ Bættar samgöngur þýði að hægt sé að nýta mannafla stofnunarinnar betur og spara þannig fjármuni í rekstri. Það hafi Fáskrúðsfjarðargöng sannað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.