Austfirðingar hafa sýnt ábyrg viðbrögð

Almannavarnanefnd Austurlands lýsir ánægju sinni með þá vinnu sem stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar á svæðinu hafa lagt á sig til að verja þá sem viðkvæmastir eru fyrir smiti af völdum Covid-19 veirunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem nefndin sendi frá sér í dag, en hún er undirrituð af Kristjáni Ólafi Guðnasyni yfirlögregluþjóni og Pétri Heimissyni, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Þar segir að samkvæmt upplýsingum hennar hafi Austfirðingar frá byrjun sýnt ábyrg viðbrögð vegna veirunnar og margir vinni þegar að útfærslu þess sem undir þá heyrir vegna samkomubanns, sem tekur gildi á mánudag.

Ástæða sé til að gleðjast yfir þessari vinnu sem virðist víða langt komin og jafnvel fullbúin. Öll þessi viðbrögð miði að því að draga úr smiti, verja þá viðkvæmustu og innviði samfélagsins.

Fram kemur að nefndinni hafi borist spurningar um áhrif samkomubannsins á aðgengi að matvöru og öðrum nauðsynjun. Nefndin fullyrðir að nóg sé til á svæðinu, samkvæmt forsvarsmönnum verslana og birgjum þeirra. Ástæðulaust sé því að breyta hefðbundnum innkaupum.

Þá eru íbúar hvattir til að fylgja leiðbeiningum stjórnvalda í hvívetna. „Það er með samstilltu átaki sem við komumst best í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika. Gleymum heldur ekki að hugsa vel um okkur sjálf og hvert annað,“ segir í tilkynningunni.

Að endingu minnir nefndin að fyrir þá sem skemur eru á leið komnir í undirbúningi sínum er að finna gátlista um órofinn rekstur fyrirtækja í aftast í viðbragðsáætlun Almannavarna um heimsfaraldur, síðum 112-114.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar