Austfirðingar hlýða tilmælum samkomubanns

Ekki kemur til greina að reyna að fá undanþágur frá tilmælum um samkomubann þrátt fyrir að covid-19 smit á Austurlandi sé mun minna en gerist á landsvísu. Áfram þurfi að sýna árvekni. Yfirlögregluþjónn segir íbúa hafa sýnt samviskusemi við að framfylgja tilmælum yfirvalda.

„Ég held að staðan hér sé góð, sama hvernig á hana er litið og verður það vonandi áfram með því að fylgja leiðbeiningum,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Alls hafa greinst átta smit í fjórðungnum. Í dag eru sléttar þrjár vikur síðan fyrsta smitið greindist. Nokkur komu fram fyrstu dagana en síðustu tvær vikur hafa aðeins greinst tvö smit. Af rúmlega 1400 sýnum sem tekin voru eystra í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar reyndist ekkert jákvætt.

Staðan er því sú að innan við 0,1% íbúa svæðisins hafa greinst með smit, samanborið við tæp 0,5% á landsvísu. Einstaka almannavarnanefndir hafa hert tilmæli til íbúa, þar sem hópsmit hafa komið upp svo sem í Vestmanneyjum og á norðanverðum Vestfjörðum. Kristján segir enga umræðu hafa verið um að slaka meira á eystra í ljósi góðrar stöðu enda sýni dæmin að staðan geti breyst hratt.

„Staðan er enn þannig að það er engin trygging fyrir neinu. Sóttvarnalæknir hefur talað um að til að geta varið samfélagið fyrir smiti þurfi 60% þess að mynda ónæmi og miðað við það erum við á byrjunarreit. Dagsskipanin er því að fara jafn varlega sem áður því við virðumst, miðað við þessar forsendur, jafn útsett fyrir smiti og við höfum verið.

Við fylgjum leiðbeiningum og höldum árvekni okkar meðan staðan er þessi. Það hefur engin umræða átt sér stað í almannavarnanefndinni um tilslakanir. Sóttvarnalæknir verður að stýra þessu og við höfum engar forsendur til annars en fylgja hans ráðleggingum.“

Lítil umferð á þjóðvegum

Tilmæli sóttvarnayfirvalda fyrir páskahelgina til landsmanna voru um að halda sig heima. Kristján Ólafur segir Austfirðinga almennt hafa hlýtt þeim fyrirmælum.

„Það var mjög lítil umferð á þjóðvegunum. Einhverjir voru í sumarbústöðum en það virtist aðallega vera fólk sem býr í fjórðungnum að skipta um umherfi. Við fengum engar tilkynningar um vandræði á sumarbústaðasvæðum.

Fólk virðist vera minna á ferðinni inn og út af svæðinu. Það kann að hafa áhrif á að hingað berst ekki smit í miklum mæli. Ef svo framheldur sem horfir, ekki koma upp ný smit, styttist í að engin virk smit verði á svæðinu,“ segir Kristján Ólafur. Fimm af þeim átta sem smituðust er batnað og staðfestir Kristján að enginn hinna þriggja sé alvarlega veikur.

Enginn ásetningur um brot

Hann segir fyrirtæki og stofnanir á svæðinu framfylgja tilmælum yfirvalda um fjöldatakmarkanir og smitvarnir. Lögreglan hefur eftirlit með framfylgd samkomubanns.

„Við höfum ekki orðið vör við annað en allir séu allir af vilja gerðir. Lögreglan hefur farið töluvert í fyrirtæki, einkum verslanir, til að fylgja eftir ábendingum um að gera megi betur. Það hafa ekki komið upp neinir árekstrar, stundum hefur verið mismunandi túlkun eða skilningur á fyrirmælum en aldrei ásetningur um brot, að okkar mati. Undantekningarlaust hefur verið bætt úr þeim athugasemdum sem við höfum gert. Samstarfið við íbúa, fyrirtæki og stofnanir hefur verið algjörlega hnökralaust.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.