Austfirðingar slegnir: Nöfn þeirra sem létust af slysförum á Austurlandi í gær
Austfirðingar eru slegnir eftir atburði gærdagsins þar sem stúlka á átjánda ári fórst í bílslysi á Fagradal og rúmlega fertugur karlmaður dó í vinnuslysi á Djúpavogi. Bænastund verður þar í kvöld.
Viðbrögð Austfirðinga hafa meðal annars verið sterk á samskiptavefnum Facebook. Margir hafa þar lýst yfir samúð sinni með þeim sem eiga um sárt að binda eftir gærdaginn eða minnst þeirra sem fórust á einn eða annan hátt. Brottfluttir Austfirðingar hafa margir hverjir látið vita af því að hugur þeirra sé á heimaslóðum.
Stúlkan sem fórst í umferðarslysi á Fagradal í gær hét Þorbjörg Henný Eiríksdóttir og bjó á Eskifirði. Hún var á átjánda aldursári.
Maðurinn sem fórst í vinnuslysi á Djúpavogi hét Jón Ægir Ingimundarson. Hann var 41 árs gamall og lætur eftir sig sambýliskonu og tvö börn. Bænastund verður haldinn í Djúpavogskirkju klukkan 18:00 í kvöld.
Rangt var farið með nafn Jóns Ægis í fyrri útgáfu fréttarinnar. Agl.is biðst velvirðingar á þeim leiðu mistökum.