Austfirsk skip aðstoðuðu við leit að sjómönnum sem saknað er í Færeyjum

Austfirsku uppsjávarveiðiskipin Barði og Hoffell hafa tekið þátt í leitinni að tveimur skipverjum sem saknað er eftir að línuveiðiskipinu Kambi hvolfdi í gær.

Samkvæmt fréttum á vef Varnar, færeyska fiskveiðieftirlitsins og sjóbjörgunarmiðstöðvarinnar, hvolfdi Kambi um klukkan átta í gærmorgunn að íslenskum tíma þegar að skipið fékk á sig brotsjó suður af Færeyjum. Með þyrlu tókst að bjarga 14 skipverjum af sextán en tveggja er saknað.

Þeirra sem saknað er hefur leitað síðan. Austfirsku skipin eru talin upp í frétt Varnar frá í gær yfir þau skip sem aðstoðað hafa, ásamt veiðiskipum frá Rússlandi og Írlandi og flugvéla frá Bretlandi og Danmörku. Austfirsku skipin voru á svæðinu við kolmunnaveiðar.

Færeyskir fjölmiðlar greina frá því að leitað hafi verið til klukkan tíu í gærkvöldi og varðskipið Brimil haldið áfram í nótt. Það heldur áfram í dag með aðstoð loftfara en veðrið hefur heldur versnað á svæðinu. Búið er að finna einn neyðarsendi úr Kambi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar