Austfirsk sveitarfélög seinka gjalddögum

Sveitarstjórnir á Austurlandi hafa undanfarna daga farið yfir aðgerðir til að létta undir með fyrirtækjum og einstaklingum sem gætu lent í vandræðum í þeirri efnahagskreppur sem hlýst af covid-19 faraldrinum. Mörg hafa seinkað gjalddögum meðan önnur skoða flýtingu framkvæmda.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs lagði á fundi sínum í gær til ýmsar aðgerðir til að mæta mögulegum samdrætti. Lagt er til að seinka eindaga á fasteignagjöldum sem gjaldfalla í apríl og maí um hálft ár. Jafnframt verði því beint til leigusala að láta leigjendur sína njóta þessa gjaldfrests, kjósi leigjendurnir svo.

Skoða á að lengja viðmiðunartímabil og sveigjanleika á umframsorpmagni sem skilað er á gámaplan og leiðrétta þjónustugjöld sveitarfélagsins í samræmi við skerta þjónustu. Frekari útfærsla liggur ekki fyrir.

Verið er að skoða möguleika á að flýta framkvæmdum, bæði á vegum sveitarfélagsins og Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Reiknað er með að þær framkvæmdir sem þegar hafa verið tilgreindar í fjárhags- og framkvæmdaáætlun haldist óbreyttar.

Á Borgarfirði hefur verið ákveðið að fresta eindögum fasteignagjalda á sama hátt og á Héraði.

Gjalddögum frestað

Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti í gær að leiðrétta gjöld fyrir þjónustu sem skerðist af völdum faraldursins. Gjöld verða innheimt eftir á, í stað fyrirfram, frá apríl og fram á sumar. Því verða ekki sendir út reikningar í byrjun apríl. Ákvörðunin stendur fram í lok maí, hið minnsta.

Þá hefur fjármálastjóra verið veitt heimild til að fresta gjalddögum fasteignagjalda og annarra þjónustugjalda á þessu ári meðal þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem þess óska. Þá munu kort í líkamsræktarstöðvum og sundlaugum framlengjast með gildistíma í samræmi við lokun þeirra starfsemi nú.

Nefndum og starfsmönnum sveitarfélagsins hefur verið falið að vinna að útfærslu á menningar í sveitarfélaginu, samráði við ferðaþjónustuna um markaðsátak og samráði við íþrótta- og tómstundafélög um stöðu mála.

Jafnframt verður farið yfir framkvæmdir sem hægt er að flýta þegar faraldurinn er genginn yfir. Sérstaklega verður farið yfir stöðu þjónustugreina og hugað að því hvernig hægt sé að styðja við bakið á þeim.

Hvatning um að versla í heimabyggð

Á Seyðisfirði er nokkuð síðan vinna fór af stað við að leita leiða til að styðja við ferðaþjónustufyrirtæki á staðnum, sem verða fyrir miklu höggi í faraldrinum. Ferðamálanefnd kaupstaðarins hvetur Seyðfirðinga til að versla í heimabyggð og að markaðsefni snú að því að kaupa þjónustu milliliðalaust af ferðaþjónustuaðilum.

Bæjarráð hefur staðfest að einstaklingar þurfi ekki að greiða fyrir þjónustu hjá kaupstaðnum sem ekki er veitt. Sú ákvörðun gildir til 15. maí. Þá leggur ráðið til að leitað verði stuðnings til að hægt verði að vinna lengra með þau verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun en ráð hefur verið gert fyrir.

Þá eiga sveitarfélögin öll sammerkt að vera að vinna að frekari aðgerðum til að mæta samdrætti út af faraldrinum. Um þær verður fjallað og þær kynntar eftir því sem þær koma fram.

Verið er að skoða að flýta framkvæmdum á vegum HEF. 


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.