Austfirskar sveitarstjórnir fyrstar til að nýta ákvæði um fjarfundi

Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar og sveitarstjórn Djúpavogshrepps urðu í morgun fyrstu sveitarstjórnir landsins til að nýta bráðabirgðaákvæði í sveitarstjórnarlögum um fjarfundi sveitarstjórna. Báðir fundirnir gengu hratt og vel enda aðeins eitt mál á dagskrá.

Til þessa hefur aðeins verið heimilt að halda fjarfundi séu samgöngur eða fjarlægðir innan sveitarfélags erfiðar og að meirihluti fundarmanna skuli vera viðstaddur á boðuðum fundarstað.

Alþingi samþykkti á þriðjudag bráðabirgðaákvæði um sveitarstjórnarlög sem sveitarstjórnaráðherra nýtti í gær til að gefa út ákvæði sem rýmka bæði heimildir nefnda sveitarfélaga til fullnaðarafgreiðslu og til að halda fjarfundi á meðan heimsfaraldri Covid-19 stendur. Heimildirnar tóku gildi á miðnætti.

Austfirsku sveitarstjórnirnar tvær urðu í morgun fyrstar til að nýta sér þetta ákvæði. Á dagskrá beggja var aðeins eitt mál, frestun boðaðra sveitarstjórnarkosninga í sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi sem fara áttu fram þann 18. apríl.

Engir tæknilegir örðugleikar

Á Djúpavogi hófst símafundur klukkan 8:30. „Þetta gekk vel. Við vorum búin að fara yfir fundarefnið og vorum vel undirbúin. Það var algjör einhugur um málið. Frestunin snýst um almannahag líkt og öll viðbrögðin sem verið er að grípa til,“ Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.

Fundur Seyðfirðinga hófst hálftíma síðar. Þar fundaði bæjarstjórnin í gegnum fjarfundakerfið Zoom. „Þetta gekk mjög vel enda kerfið gott. Það voru engir tæknilegir örðugleikar. Allir heyrði vel og sáu. Fundurinn sjálfur gekk hratt og vel, það voru engar umræður enda um fátt að ræða í þessari stöðu,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar.

Þar hittist bæjarráð á fundi í gær þar sem ákveðið var að næstu vikurnar myndu allar nefndir kaupstaðarins funda með fjarfundakerfi.

Verður til þess að fólk lærir á fjarfundabúnað

Sveitarfélögin tvö munu síðar á árinu sameinast Borgarfjarðarhreppi og Fljótsdalshéraði. Í aðdraganda sameiningarinnar var lögð áhersla á að fjarfundabúnaður yrði vel nýttur hjá sameinuðu sveitarfélagi.

Gauti telur að þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku þjóðfélagi eigi eftir að breyta hugarfari margra gagnvart fjarfundabúnaði. „Tæknin er þarna en stundum vantar æfingu og þjálfun. Kannski verður þetta til þess að fólk lærir betur á búnaðinn. Ég held að það sé full ástæða til að nýta hann meira, þó ekki sé nema vegna kolefnissporsins. Hann hjálpar líka til við að tryggja að þeir sem búa fjær geti haft áhrif.“

Eftir sem áður verður þó þörf á að fólk hittist. „Ég er þeirrar skoðunar að fólk þurfi að hittast af og til en þegar tilefni og aðstæður leyfa þá er fjarfundurinn kjörin leið,“ segir Gauti.

Hann segir Djúpavogsbúa almennt rólega þessa dagana. Þar hefur verið virkjað viðbragðsteymi sveitarstjóra og forstöðumanna stofnana sveitarfélagsins sem vinnur vel saman. Það er ánægjulegt að sjá að þegar við stöndum frammi fyrir svona viðfangsefni hvað fólk er tilbúið að taka þátt. Það er klisja en við erum öll almannavarnir þegar svona stendur á og það er gríðarlega dýrmætt.“

Högg fyrir ferðaþjónustuna

Hvað atvinnulífið snertir er ljóst að ferðaþjónustan verði fyrir skakkaföllum þótt áhrifin séu engan vegin komin fram. Seyðfirðingar sjá þau nú þegar, en Norræna kom í gærkvöldi og stoppaði stutt. Engir farþegar voru með ferjunni og verða það ekki næsta mánuðinn.

„Ferðaþjónustuaðilar eru áhyggjufullur. Það er mikið um afbókanir og sumarið lítur ekki vel út þannig þetta er mikið högg. Við erum að fara yfir hvað sveitarfélagið getur gert á móti ríkinu,“ segir Hildur.

Þá hefur snjóþungur vetur haft sín áhrif á bæjarlífið. „Fólk ber sig vel en er orðið langeygt eftir göngum. Það er langt síðan hefur verið jafn mikil ófærð. Það góða er að við erum þétt samfélag og erum dugleg að skemmta okkur sjálf. Það má segja að ófærðin hafi verið lán í óláni því við höfum eiginlega verið sjálfkrafa í sóttkví.“

Frá fjarfundi bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar. Mynd: Hildur Þórisdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar