Austfirskir hjúkrunarfræðingar styðja kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum

felag_islenskra_hjukrunarfraedinga.jpg
Stjórn Svæðisdeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) á Austurlandi lýsir yfir stuðningi við hjúkrunarfræðinga Landsspítalans í viðræðum um nýjan stofnanasamning. Stjórnin lýsir einnig yfir áhyggjum sínum af ástandinu ef uppsagnir hjúkrunarfræðina á spítalanum taka gildi um næstu mánaðarmót.

„Svæðisdeild Fíh á Austurlandi lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þess ástands sem skapast getur á LSH ef uppsagnir hjúkrunarfræðinga 1.mars munu standa. LSH er bráðasjúkrahús allra landsmanna og ljóst að hlutverk þess sem slíkt mun lamast án starfskrafta hjúkrunarfræðinga. 

Það mun óhjákvæmilega hafa áhrif á allar heilbrigðisstofnanir landsins geti LSH ekki sinn því hlutverki sem því er ætlað. Svæðisdeild Fíh skorar á viðsemjendur að ganga sem fyrst til samninga við hjúkrunarfræðinga LSH og koma þannig í veg fyrir að alvarlegt ástand skapist í heilbrigðismálun íslendinga.“

Í ályktuninni kemur fram að samningarnir á Landsspítalanum séu forsenda annarra stofnanasamninga við hjúkrunarfræðina um allt land. Þegar hann sé tilbúinn sé hægt að fara vinna að sambærilegum samningum annars staðar.

Þá fagnar stjórnin því að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt að ráðast í jafnlaunaátak til að rétta hlut starfsstétta þar sem konur séu í miklum meirihluta. „Fáar stéttir endurspegla þann hóp betur en hjúkrunarfræðingar og því fæst varla betra tækifæri til að fylgja þessum orðum eftir en í yfirstandandi stofnanasamningsviðræðum við hjúkrunarfræðinga.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar