Austfirskir sveitarstjórnarmenn vilja jákvæðara sjónarhorn á fréttir úr fjórðungnum

valdimaro_stfj.jpgForsvarsmenn SSA og einstakra sveitarfélaga á Austurlandi hafa óskað eftir því að RÚV „taki jákvæðara sjónarhorn“ á fréttir sem fluttar eru úr fjórðungnum. Bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð segir fáránlegt að sveitarstjórnarmenn skipti sér af því frá hvaða sjónarhornum fjallað sé um fréttir.

 

Á bæjarstjórnarfundi Fjarðabyggðar í gær sagði Valdimar O. Hermansson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, að bæði sambandið og einstök sveitarfélög hefðu gert athugasemdir við fréttaflutning, sérstaklega Ríkisútvarpsins, af atvinnuleysi í fjórðungnum.

Listi yfir fréttnæm málefni

„Það hefur verið óskað eftir því að fréttamaður RÚV hér á Austurlandi taki jákvæðara sjónarhorn á þær fréttir sem hann flytur, bæði af þessum málum og öðrum,“ sagði Valdimar.

Þannig hefði fréttamönnum verið sendur „langur listi um verkefni og málefni hér á Austurlandi sem væri fréttnæm.“ Valdimar sagði að hjá vikuritinu Austurglugganum og fréttaskýringaþættinum Landanum væri verið að vinna úr þessum ábendingum.

Því jákæðari umfjöllun, því betri

Elvar Jónsson, oddviti Fjarðalistans, sagðist fagna því að SSA vildi vandaðan fréttaflutning og hann væri sem allra jákvæðastur. Fréttir um jafn viðkvæm málefni og atvinnuleysi megi ekki hljóma þannig að „um alvarlegra mál sé að ræða en þörf sé á.“

Hann sagðist líta svo á að það væri eitt af hlutverkum sveitarstjórnarmanna að koma fjórðungnum, sem hefði orðið útundan í fréttum, á framfæri. „Öll umfjöllun er góð og því jákvæðari, því betri. Bæjarfulltrúar eiga að vera duglegir við að koma fréttum, sem eru annað hvort jákvæðar eða mikilvægar, á framfæri.“

Pólitíkus, ekki fréttastjóri

Esther Ösp Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Fjarðalistans, sagðist vona að fréttamenn láti ekki sveitarstjórnarmenn stjóra hvernig þeir fjalli um málefnin. Í pistli, sem hún ritaði á heimasíðu sína, eftir fundinn segir hún „algjörlega út í hött að sveitarstjórnarmenn skipti sér á nokkurn hátt að sjónarhorni því sem fréttamaður velur, sama um hvað er fjallað. Sveitarstjórnarmaður er lýðræðislega kjörinn pólitíkus, ekki fréttastjóri.

Í öðru lagi er í besta falli hlægilegt að sveitarstjórnarmaður sendi fréttamönnum einhvers konar óskalista yfir þau málefni sem hann vill að fjallað sé um. Listann væri réttara að stíla á jólasveininn en fréttastofur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar