Austfirskum bændum heimilt að flytja hey til Noregs

Bændum í fjórum af fimm varnarhólfum á svæðinu milli Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Breiðamerkursandi er heimilt að flytja hey út til Noregs. Þetta eru niðurstöður athugunar Matvælastofnunar.

Ósk hefur borist frá Noregi um að fá keypt hey frá Íslandi en miklir þurrkar hafa valdið uppskerubresti þar í sumar. Austfirskir bændur eru margir vel birgir eftir gjöful sumur undanfarin ár og eiga til viðbótar við uppskeru sumarsins talsverðar fyrningar.

„Það hafa nokkrir bændur hringt. Ég býst við að margir séu vel heyjaðir og áhuginn sé meiri þess vegna,“ segir Þorsteinn Bergsson, dýraeftirlitsmaður hjá MAST á Austurlandi.

Samkvæmt tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í dag er heimilt að flytja út hey frá bæjum í Norðausturhólfi, Héraðshólfi, Austfjarðahólfi og Suðausturlandshólfi.

Undanskilið er Suðurfjarðahólf sem nær frá Lagarfljóti að vestan, Reyðarfjarðarlínu að norðan og Hamarsfjarðalínu að sunnan. Þá er einnig óheimilt að flytja út hey frá bæjum þar sem garnaveiki hefur komið upp síðustu ár. Nokkrir austfirskir bæir eru á þeim lista.

Á vef norsku matvælastofnunarinnar segir að innflytjendur séu ábyrgir fyrir að heyið feli ekki í sér áhættu. MAST gerir því kröfur um að áhugasamir útflytjendur sæki um heilbrigðisvottorð. Heimilt er að flytja hey til Noregs frá ríkjum Evrópusambandsins auk tíu sem standa utan þess og er Ísland á þeim lista.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.