Austfirskir skólastjórar lýsa yfir stuðningi við kennara í kjaradeilu
Skólastjórafélag Austurlands skorar á sveitarstjórnir á Austurlandi að beita sér fyrir lausn í kjaradeilu kennara. Samningafundir standa yfir í deilunni en lausn er ekki enn í sjónmáli.Kennarar hafa frá því í lok október staðið fyrir verkföllum, tímabundnum sem ótímabundnum, í ákveðnum skólum. Á mánudag bætast þrír grunnskólar í hópinn. Verkföll í þeim eru boðuð til jóla.
Til þessa hafa ekki verið boðuð verkföll í austfirskum skólum, en austfirskir kennarar hafa efnt til samstöðuaðgerða, meðal annars með samstöðugöngu á Reyðarfirði síðasta þriðjudag og þar áður á Egilsstöðum.
Skólastjórafélag Austurlands sendi í morgun frá sér ályktun þar sem skorað er á sveitarfélög á Austurlandi að beita sér fyrir lausn í kjaradeilu Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga og íslenska ríkið.
Þar segir að mikilvægt sé að sveitarstjórnir, sem beri ábyrgð á að framfylgja grunnskólalögum, liðki fyrir viðræðum með að leggja áherslu á að fjárfesta í kennurum.
Fundað er í deilunni hjá Ríkissáttasemjara þriðja daginn í röð en miðað við fréttir þaðan eru ekki líkur á að skrifað verði undir nýjan kjarasamning í dag.