Austfirskir skólastjórar lýsa yfir stuðningi við kennara í kjaradeilu

Skólastjórafélag Austurlands skorar á sveitarstjórnir á Austurlandi að beita sér fyrir lausn í kjaradeilu kennara. Samningafundir standa yfir í deilunni en lausn er ekki enn í sjónmáli.

Kennarar hafa frá því í lok október staðið fyrir verkföllum, tímabundnum sem ótímabundnum, í ákveðnum skólum. Á mánudag bætast þrír grunnskólar í hópinn. Verkföll í þeim eru boðuð til jóla.

Til þessa hafa ekki verið boðuð verkföll í austfirskum skólum, en austfirskir kennarar hafa efnt til samstöðuaðgerða, meðal annars með samstöðugöngu á Reyðarfirði síðasta þriðjudag og þar áður á Egilsstöðum.

Skólastjórafélag Austurlands sendi í morgun frá sér ályktun þar sem skorað er á sveitarfélög á Austurlandi að beita sér fyrir lausn í kjaradeilu Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga og íslenska ríkið.

Þar segir að mikilvægt sé að sveitarstjórnir, sem beri ábyrgð á að framfylgja grunnskólalögum, liðki fyrir viðræðum með að leggja áherslu á að fjárfesta í kennurum.

Fundað er í deilunni hjá Ríkissáttasemjara þriðja daginn í röð en miðað við fréttir þaðan eru ekki líkur á að skrifað verði undir nýjan kjarasamning í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.