Austurbrú fær styrk til eflingar starfsmenntunar: Hvetur til samstarfs á Austurlandi
Austurbrú fékk nýlega tvo styrki frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til eflingar starfsmenntunar upp á fjórðu milljón króna.
Annars vegar er um að ræða styrk upp á 1,6 milljón króna í verkefni sem heitir „Umhirða ungskóga,“ samstarfsverkefni Austurbrúar, AFLs-starfsgreinafélags og Héraðs- og Austurlandsskóga. Styrkurinn er veittur til áframhaldandi þróunar á verkefninu, gerð námskrár, tilraunakennslu og mat á árangri.
Hinsvegar er um að ræða 2 milljónir sem fengust í verkefni sem kallast „Hönnun úr staðbundnum hráefnum,“ samstarfsverkefni Austurbrúar, Menntaskólans á Egilsstöðum og Listaháskóla Íslands. Styrkurinn er veittur til að þróa nám á fjórða þrepi, skipuleggja það, útfæra markmið, skilgreina áfanga, þrepaviðmið og fleira. Námið byggir á Evrópuverkefninu „Creative Communities“ sem Austurbrú hafði umsjón með árin 2010-2012.
Bergþóra Hlín Arnórsdóttir, fulltrúi símenntunarsviðs, segir svona styrki hafa mikla þýðingu fyrir starfsemi Austurbrúar. „Þessi verkefni hvetja okkur til samstarfs við aðra aðila og þau hvetja starfsmenn til að hugsa um nýjar leiðir og hvetja til frumkvæðis. Þeir gefa okkur líka aukið svigrúm til að fjármagna verkefni sem við gætum annars ekki leyft okkur að nota tímann í og samstarfsverkefni eru einnig mikilvæg til að halda tengslum við atvinnulífið og aðrar stofnanir.“
Auk þessara styrkja hefur Austurbrú nýlega fengið fleiri styrki til starfsmenntunar í vor. Um er að ræða svokallað fjölsmíðaverkefni í samstarfi við Tækniminjasafnið á Seyðisfirði sem verður tilraunakennt í mars og apríl, vinnustaðanámskeið í íslensku í samstarfi við Skinney/Þinganes og rannsóknarverkefni um greiningu á þörf fyrir starfsmenntun sem verið er að framkvæma um þessar mundir.