Austurbrú leggur grunn að markvissri fræðslu til ferðaþjónustufyrirtækja

Austurbrú vinnur nú að gerð fræðsluáætlunar fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Austurlandi sem ætlað er að skila sér í betri þjónustu við ferðamenn.



„Við sjáum fram á mikla aukningu ferðamanna og verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að taka vel á móti þeim,“ segir Hulda Guðnadóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Hulda segir verkefnið ganga út á að greina fræðsluþörf og mynda fræðslustefnu fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Austurlandi. Fyrirtækin hafa verið flokkuð eftir starfsgrein og er markmiðið er að mynda nægilega stóra hópa svo hægt sé að sækja um sérsniðin og hagnýt námskeið fyrir hvern og einn, en hingað til hefur þetta verið ógerlegt vegna þess hversu fámenn fyrirtæki oft eru.

„Búið er að skipta fyrirtækjum niður í afþreyingar-, gisti-, samgöngu-, upplýsingamiðstöðva-, veitinga- og verslunarhóp. Þau fyrirtæki sem starfa til dæmis innan afþreyingargeirans mynda saman hóp og vinna þarfagreiningu á því hvaða námskeið myndi henta þeirra fyrirtæki í samvinnu við fræðslustjóra.

Með þessu móti er hægt að útbúa fræðsluáætlanir sem miða að hverri og einni starfsgrein innan geirans. Út frá þeim verða svo unnar fræðslu- og símenntunaráætlanir sem leggja grunn að markvissri fræðslu starfsmanna.

Við vonum að með þessu náum við betur til fyrirtækjanna og áttum okkur á því hvaða námskeið gagnast þeim best.

Við viljum hvetja þau fyrirtæki sem eru ekki búin að skrá sig að gera það eins fljótt og hægt er, en með því móti fáum við ítarlegri þarfagreiningu. Við viljum sérstaklega ná til litlu ferðaþjónustufyrirtækjanna,“ segir Hulda.

Þau fyrirtæki sem greiða í starfsmenntunarsjóði geta í flestum tilfellum fengið námskeiðin sjálf niðurgreidd. Austurbrú mun sjá um að sækja um námskeiðin og halda utan um þau.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.