Austurglugginn biður Hannes afsökunar á ásökun um fölsun: Sagður óreiðumaður í skýrslu

hannes_sigmarsson_jpg_280x800_q95.jpg
Héraðsfréttablaðið Austurglugginn hefur dregið fullyrðingar um að Hannes Sigmarsson, fyrrverandi yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Fjarðabyggð, hafi falsað endurlífgun á sjúklingi til baka. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem blaðið byggir umfjöllun sína á, segir að læknirinn hafi sýnt einbeittan vilja til að smyrja á reikninga.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Ragnar Sigurðsson, ritstjóri Austurgluggans, hefur sent frá sér. Í henni er beðist afsökunar á að hafa notað orðið „fölsun“ í fyrirsögn á forsíðu og millifyrirsögn og það dregið til baka. Eðlilegra hefði verið að tala um að talið væri verið að rukkað hafi verði fyrir endurlífgun sem aldrei fór fram. Blaðið stendur að öðru leyti við umfjöllun sína frá því í síðustu viku.

Ragnar segir að það hafi ekki verið ætlun blaðsins að fullyrða að Hannes hefði brotið lög eða viðhafa meiðandi ummæli um hann, heldur að greina frá efnisatriðum skýrslunnar. 

Í skýrslunni kemur fram að Hannes hafi rukkað fyrir endurlífgun á sjúklingi sem í raun þjáðist af áfengiseitrun. Ekki verði séð að hann hafi unnið þau verk sem falla undir skilgreiningu kjaranefndar á endurlífgun.

Lögmenn Hannesar sendu um helgina frá sér yfirlýsingu fyrir hönd hans þar sem umfjöllunin var sögð „meiðandi og villandi“ og vinnubrögðin „undarleg og ámælisverð.“ Í yfirlýsingunni vitnar ritstjórinn enn í skýrslu Ríkisendurskoðunar en þar segir í samantekt álitsgerðar trúnaðarlæknis Ríkisendurskoðunar

„Í mánuðinum 16. desember 2008 til 15. janúar 2009 ofreiknaði Hannes Sigmarsson yfirlæknir á Eskifirði sér laun á vöktum fyrst og fremst með því að oftelja útköll og ofreikna tíma sem samskiptin tóku, en ennfremur fundust dæmi um aðrar rangfærslur. Þessi ofreikningur launa sást líka við samanburðarrannsókn á mánuðinum 16. maí til 15. júní 2007. Má því segja að Hannes hafi sýnt einbeittan vilja við að smyrja á reikninga sína til heilbrigðisstofnunarinnar þessa tvo mánuði, og líklega í mun lengri tíma. Má segja eftir þessa ítarlegu rannsókn að ekki verður um villst að Hannes er óreiðumaður hvort sem litið er til sjúkraskárfærslna, færslu samskipta eða notkun gjaldskrár heilsugæslulækna á vöktum.“ 

Í febrúar 2009 var Hannesi vikið frá störfum tímabundið á meðan mál hans væri til rannsóknar hjá lögreglu. Lokaniðurstaða rannsóknar sýslumannsins á Eskifirði var að ekki þættu líkur á sakfellingu í meirihluta þeirra brota sem kært var fyrir. Þetta staðfesti ríkissaksóknar og málið var þar með látið niður falla.

Þrátt fyrir þetta var Hannesi síðar vikið endanlega frá störfum. Hann hefur stefnt HSA og forstjóra stofnunarinnar fyrir ólögmæta uppsögn og meiðyrði. Hannes hefur einnig gagnrýnt að honum hafi ekki verið boðið að gera athugasemdir við ásakanirnar í skýrslu Ríkisendurskoðunar 

Í yfirlýsingu blaðsins er bent á að „í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru viðhafðar alvarlegar ásakanir sem ekki hafa verið dregnar til baka eftir því sem blaðið kemst næst. Ef aðilar málsins eru ósáttir við túlkun blaðsins á gögnum Ríkisendurskoðunar þá er sjálfsagt að gera athugasemdir við blaðið sem mun taka tillit til þeirra athugasemda reynast þær á rökum reistar.“

Í fréttinni kom fram að Einar Rafn Haraldsson, forstjóra HSA, vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið og skýrsluna. Í yfirlýsingu lögmanna Hannesar var þetta kölluð „undarleg efnistök.“

„Austurglugginn leitaði til Einars til að inna hann eftir svörum um eftirlit með reikningsfærslum lækna almennt en ekki læknisverk eða reikningsfærslur Hannesar Sigmarssonar sérstaklega. Í ljósi þess að beðið er dóms í máli sem Hannes höfðaði gegn HSA vildi Einar ekki tjá sig um málið og óskaði sérstaklega eftir því að blaðið tæki það fram,“ segir í yfirlýsingu blaðsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.