Axarvegur í samvinnu ríkis og einkaaðila?

Axarvegur er ein þeirra framkvæmda sem ráðist verður í á næstunni í samvinnu ríkis og einkaaðila verði frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um að fela einkaaðilum fjármögnun vegaframkvæmda að lögum.

Ráðherrann stefnir að því að leggja á haustþingi fram frumvarp um fjármögnun einkaaðila á framkvæmdum og viðhaldi einstakra vegakafla. Frestur til að senda inn athugasemdir um frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda rann út fyrir viku.

Frumvarpið er framhald af vinnu starfshóps sem í apríl skilaði af sér skýrslu um forgangsröðun framkvæmda og fjármögnun þeirra. Var þar sérstaklega horft á samvinnuverkefni einkaaðila og ríkis sem væntanlega yrðu fjármögnuð með veggjöldum.

Þrjú austfirsk verkefni voru þar sérstaklega tilgreind, göng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða, milli Lóns og Álftafjarðar og Axarvegur milli Berufjarðar og Skriðdals sem ætlað er að stytta vegalengdina milli Egilsstaða og Djúpavogs.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum er Axarvegur eitt fimm verkefna sem lagt er til að boðnar verði út í samvinnu einkaaðila og ríkis. Hin eru nýjar brýr yfir Ölfusá og Hornafjarðarfljót, Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga

Í rökstuðningi ráðuneytisins segir að um sé að ræða brýnar en dýrar samgöngubætur sem ekki hafi komist á samgönguáætlun hingað til, nema að hluta. Nauðsynlegt þyki að ráðast í framkvæmdirnar, meðal annars með tilliti til byggðaþróunar.

Tillögurnar koma í framhaldi af því að talið sé nauðsynlegt að fara í 200 samgönguverkefni á næstu 25 árum sem kosti yfir 400 milljarða króna. Það fjármagn sem eyrnamerkt hefur verið í fjármálaáætlun dugir ekki til þessa þannig finna þarf fjármagn annars staðar til að flýta framkvæmdum.

Í samvinnuverkefnunum nær ábyrgð einkaaðila til fjármögnunar verkefnisins, í heild eða að hluta, framkvæmdarinnar sjálfrar, og reksturs og viðhalds að framkvæmd lokinni og þar til gjaldtöku lýkur. Samið verði um gjaldtöku í tiltekinn tíma, þar til framkvæmdin er fullfjármögnuð. Gjaldtakan falli niður að þeim tíma loknum. Í lok samningstíma færist eignarhald innviða yfir til ríkisins. Samkvæmt hugmyndum starfshópsins á veggjald að miðast við hverja framkvæmd fyrir og taka mið af kostnaði við hana.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar