Axarvegur og Fjarðarheiðargöng verða vart fjármögnuð án veggjalda

Verkefnastofa, sem skipuð hefur verið á vegum tveggja ráðuneyta um gjaldtöku til framtíðar af vegasamgöngum, hefur verið falið að finna leiðir til að fjármagna framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng og Axarveg.

Þetta kemur fram í svörum frá Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra, við fyrirspurnum Austurfréttar. Upphaflega var óskað eftir viðbrögðum frá fjármála- og efnahagsráðherra en bent á að þótt verkefnastofan sé á forræði beggja ráðuneyta þá fari innviðaráðherra með samgöngumál, forgangsröðun framkvæmda og fjárheimilda.

Tilkynnt var um verkefnastofuna í byrjun febrúar. Henni er ætlað að ætlað að móta tillögur um sjálfbæra og gagnsæja gjaldtöku af vegasamgöngum til framtíðar. Gjaldtaka er í dag að miklu leyti innifalin í eldsneytisverði en nýir orkugjafar breyta þeirri mynd.

Er svo komið að hluti ökutækja greiðir engin gjöld fyrir notkun veganna. Þar hefur einkum verið rætt um kílómetragjald en einnig er horft til sérstakra gjalda til að fjármagna stærri vegaframkvæmdir. Meira þarf til þess en sem nemur hefðbundnum framlögum í hefðbundnum fjárlögum.

Samkvæmt samgönguáætlun á að fjármagna samvinnuverkefni í vegagerð, eins og nýjan veg yfir Öxi og jarðgöng að hluta eða heild með veggjöldum. Í svari Sigurðar Inga segir að af ýmsum ástæðum sé mikilvægt að skoða og greina öll þau áform með heildstæðum hætti, svo sem með tilliti til áhrifa þeirra á samgöngukostnað á milli landshluta og þjóðfélagshópa.

„Miðað við framlagða fjármálaáætlun fyrir árin 2024-28 er ljóst að svigrúm til þess að fjármagna umræddar framkvæmdir að fullu með beinum framlögum úr ríkissjóði er takmarkað.

Bæði verkefnin eru í forgangi og stefnt er að því að koma þeim á dagskrá þannig að framkvæmdir þeirra beggja hefjist á fyrsta tímabili samgönguáætlunar. Um leið er það ljóst að full fjármögnun er háð niðurstöðu verkefnastofunnar.“

Fyrsta tímabil samgönguáætlunar er árin 2020-24. Samkvæmt svarinu er markmið verkaefnastofunnar að allir helstu þættir nýs tekjuöflunarkerfis verði komnir til framkvæmda fyrir lok árs 2024.

Mynd: Vegagerðin

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar