Axarvegur: Sameinuð erum við sterkari
Sveitarstjóri Djúpavogshrepps fagnar því að samgönguráðherra leggi til í endurskoðaðri samgönguáætlun að framkvæmdir við veg yfir Öxi hefjist árið 2021. Greiðari samgöngur séu meðal þess sem lagt sé til grundvallar í sameiningarviðræðum hreppsins við Fljótsdalshérað, Seyðisfjarðarkaupstað og Borgarfjarðarhrepp.„Ein af röksemdunum fyrir sameiningu Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar er að sameinuð eigum við greiðari leið að ríkisvaldinu jafnframt því að hafa meira vægi. Uppfærð samgönguáætlun ber þess merki enda hafði ráðherra orð á því sjálfur í kynningunni í morgun,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynnti í morgun tillögur sínar að endurskoðaðri samgönguáætlun. Samkvæmt verður byrjað á nýjum vegi yfir Öxi árið 2021 og þeim lokið árið 2023. Heildarkostnaður framkvæmdarinnar verður 2,8 milljarðar. Helmingur fjárins kemur beint úr ríkissjóði en hinn helmingurinn með veggjaldi.
Ráðherrann sagði við kynninguna í morgun að mikið hefði verið þrýst á veginn í tengslum við sameiningarviðræðurnar. „Reynslan hefur sýnt okkur að þegar við berum gæfu til að standa saman þá gerast hlutirnir. Sameinuð erum við sterkari,“ segir Gauti.
Tíðindin komu honum samt ekki mjög á óvart. „Þetta er í samræmi við þær væntingar sem við höfum gert okkur eftir samtöl við ráðherra og fulltrúa ráðuneytisins undanfarnar vikur og mánuði í tengslum við sameiningarviðræðurnar.“
Tillögur ráðherra eru aðgengilegar í samráðsgátt stjórnvalda. Opið verður fyrir umsagnir um þær í tvær vikur en ráðherrann hyggst leggja þær fram á Alþingi 15. nóvember.