Axarvegur tilvalinn sem samvinnuverkefni?

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, telur raunhæft að ráðast í gerð nýs vegar yfir Öxi í samvinnu við einkaaðila um fjármögnun og framkvæmdir. Þingmenn Norðausturkjördæmis þrýsta á um veginn sem þeir segja hafa beðið lengi.

Axarvegur og fjármögnun hans, í gegnum svonefndar samvinnu- eða PPP-leiðir, voru rædd við fyrstu umræðu um samgönguáætlun 2024-38 á Alþingi fyrr í þessum mánuði. Áformað hefur verið að vegurinn verði unnin eftir fyrrnefndri forskrift.

Eru samvinnuverkefnin raunhæf?


Axarveginn bar á góma þegar rætt var um þessa fjármögnunarleið sem áformuð er fyrir fleiri framkvæmdir. Nokkrir þingmenn spurðu ráðherrann beint út hvort hún væri raunhæf á Íslandi.

Þeirra á meðal voru Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar úr Suðvesturkjördæmi og Jódís Skúladóttir, sem situr á þingi fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í Norðausturkjördæmi. Þórunn sagði að illa hefði gengið að fá tilboð í nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót. Eins að ríki fengi yfirleitt hagstæðari bankalán heldur en ríkið. Hún spurði út í ríkisábyrgð og hvort ekki yrði að horfast í augu við að ríkið borgaði framkvæmdirnar á endanum.

Jódís lýsti efa um að lánastofnanir væru ekki til í að leggja þær fjárhæðir sem til þyrfti í verkefni á landsbyggðinni og spurði hvort PPP-leiðin væri raunhæf.

Sigurður Ingi sagði samvinnuleiðina hafa sannað sig í Hvalfjarðargöngunum. Síðan hefði gleymst að nota hana. Hann kvaðst nýlega hafa hitt aðila sem hefði sagt Axarveginn tilvalinn sem samvinnuverkefni. Ýmsar útfærslur væru til eins og Danir hefðu sýnt, til dæmis með ríkisábyrgð. Þá skynjaði hann aukinn áhuga, ekki síst lífeyrisjóðanna, að koma að verkefnum sem þessu.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins úr Norðvesturkjördæmi, velti upp spurningum um gjaldtökuleiðir í samgöngum með samvinnuleiðum, gjaldtöku í jarðgöng og kílómetragjald. Sigurður Ingi svaraði að ekki væri um þrefalda gjaldtöku að ræða heldur þrjár ólíkar leiðir. Berglind Harpa Svavarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi, sagðist vegna fjármögnunartillögunum því þannig yrði úr meiri að spila til framkvæmda.

Æskuminningar um væntanlegar framkvæmdir við Öxi


Bæði Jódís og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins úr Norðausturkjördæmi, sögðu biðina eftir Axarvegi hafa verið langa. Líneik Anna rifjaði upp að vegurinn hefði verið nánast tilbúinn til framkvæmda árið 2008 þegar skera varð niður samgönguáætlun við fjármálahrunið. Hann hefði síðan birst á samgönguáætlun aftur 10 árum síðar. Nú sé útlit fyrir að hann verði ekki tilbúinn fyrr en 20 árum síðar en áformað varð 2008. Jódís kveðst ekki skilgreina sig sem unga konu þótt hún væri heldur ekki öldruð en bætti svo við: „Ég man eftir því í minni æsku að við vorum alveg að fara að laga Öxi.“

Báðar bentu á mikilvægi vegarins fyrir samgöngur innan Múlaþings og að ómögulegt væri að halda úti raunverulegri vetrarþjónustu fyrr en með nýjum vegi. Þegar Öxi er lokuð lengist leiðin milli Egilsstaða og Djúpavogs um 70 km.

Sigurður Ingi sagði að ef horft væri á venjulega forgangsröðun samgönguáætlunar þá kæmist Öxi ekki framarlega. Þess vegna væri samvinnuleiðin eini möguleikinn til að flýta framkvæmdum. Samkvæmt samgönguáætluninni sem liggur fyrir Alþingi er áætlað að hefja framkvæmdir árið 2028.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.