Bæjarráð Fjarðabyggðar ítrekar bókun sína vegna útgáfu laxeldisleyfa

Fyrirhuguð 10.000 tonna viðbótarframleiðsla á laxi í Reyðarfirði hefur verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012. Umsóknarferlið hefur staðið í sex ár og engin lausn er í sjónmáli.


Á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar í gær var eftirfarandi bókun um útgáfu leyfa í tengslum við laxeldi samþykkt:

„Bæjarráð Fjarðabyggðar vill ítreka fyrri bókun sína um útgáfu leyfa í tengslum við laxeldi. Enda tafir við leyfisveitingu farnar að bitna mjög á þeirri starfsemi sem hefur verið í uppbyggingu í Reyðarfirði undanfarin ár.“

Í fréttatilkynningu frá Fjarðabyggð segir að óásættanlegt sé að fyrirtæki sem vill fjárfesta í atvinnuuppbyggingu sé búið að vera í umsóknarferli í sex ár án þess að niðurstaða sé í sjónmáli. Enn fremur virðist sem greinin sitji ekki við sama borð í Fjarðabyggð og í öðrum landsfjórðungum. Þá segir að sðlilegt sé að umsókn taki mið af lögum og reglum sem í gildi eru og þeim gögnum sem þegar hefur verið aflað og lögð fram.

Í fréttatilkynningunni segir einnig að í samræmi við ályktun SSA 2018 leggi Fjarðabyggð áherslu á mikilvægi þess að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir fjölbreytta atvinnuuppbyggingu í fjórðungnum.

„Fiskeldi getur orðið ein af stoðum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og þarf líkt og aðrar atvinnugreinar starfsumhverfi sem er skýrt og stöðugt til langs tíma. Bæjarráð Fjarðabyggðar hvetur stjórnvöld til þess að afgreiða þau mál sem beðið hafa afgreiðslu um árabil og hafa verið tafin ítrekað á grundvelli afturvirkni og jafnvel ólögmætra sjónarmiða. Jafnframt mun bæjarráð óska eftir fundi með Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málefni laxeldis í Fjarðabyggð.“

Ljósmynd: Laxar fiskeldi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.