Bændur óttast kal í túnum

Bændur á Austurlandi hafa áhyggjur af miklum kalskemmdir komi í tún ef ekki kemur hlákutíð sem bræðir svellin sem víða liggja í dag.

„Ég held að menn séu áhyggjufullir, ég heyri marga vera byrjaða að tala um þetta. Það hafa verið mikil svell á túnum víða á svæðinu síðan í byrjun desember,“ segir Guðfinna Harpa Árnadóttir, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins á Egilsstöðum.

Svell sem liggja yfir túnum kæfa gróðurinn og eyðileggja rót plöntunnar þannig að hún kemur ekki upp að vori eins og venjulega. Aðrar tegundir koma oftast upp úr kalblettinum, en það tekur tíma auk þess sem ekki er um að ræða þau grös sem bændur nýta í dýr sín. Ef kal er á stórum svæðum þarf að ráðast í kostnaðarsama endurræktun til að fá ásættanlega uppskeru.

Eystra byrjuðu svellin að myndast í aðventustorminum sem gekk yfir landið 10. og 11. desember og uxu síðan þegar snjóaði, rigndi og frysti á víxl til jóla.

„Í þessari tíð komu svellin mjög hratt. Oft er talað um að svellin megi ekki liggja yfir nema að hámarki 2-3 mánuði til að ekki myndist kal undir þeim. Svellin hafa þegar legið yfir í mánuð. Ef ekkert fer að breytast þá er kaltjón líklegt,“ segir Guðfinna Harpa.

Svellin eru reyndar víða og segist Guðfinna Harpa hafa heyrt um að svell liggi yfir túnum frá Húnavatnssýslum og austur um land. Þau séu þó misgömul, á sumum svæðum hafi fyrst lagst snjór yfir og svellin séu nýkomin. Enn er þó mikil óvissa fyrir hendi og það eitt víst að bændur fylgjast grannt með veðurspám.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.